Myndin sýnir þau lönd sem flóðbylgjan skall á. Langflestir hafa farist í Indónesíu og Sri-Lanka.
|
Nýjustu tölur herma að meira en 150.000 menn hafi farist í hörmungunum í Asíu nú um jólin. Efnahagslegur skaði í þeim ríkjum sem urðu fyrir barðinu á risaflóðbylgjunni er talinn vera af stærðargráðunni 1.000 milljarðar. Þetta eru voveiflegar tölur og því ríður á Vesturlandabúar bretti upp ermar og veiti nauðsynlega aðstoð til að hægt sé að koma í veg fyrir að þessar náttúruhamfarir verði fleirum að aldurtila.
Sérfræðingar hafa sagt hættu á því að smitsjúkdómar og skortur á mat, sjúkragögnum og öðrum nauðsynlegum hjálpargögnum geti orðið til þess að allt að tvöfalt fleiri muni týna lífi. Til að halda tölu látinna í lágmarki og til að koma daglegu lífi þeirra milljóna manna, sem hamfarirnar snertu á einhvern hátt, í eðlilegan farveg þarf neyðarhjálp. Flóðbylgjan skall á mörgum af fátækari ríkjum heims og því er nauðsynlegt að við Vesturlandabúar sem búum við allsnægtir og vellystingar komum þeim sem þurfa á því að halda til aðstoðar.
Sem betur fer hafa ríki heims, fyrirtæki og einstaklingar sýnt hug sinn í verki og nú þegar hafa safnast meiri peningar en nokkru sinni áður í sambærilegum söfnunum. En betur má ef duga skal. Á nýársdag áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að um 2 milljarðar dollara hefðu safnast eða kannski um 15% af áætluðu efnahagslegu tjóni. Af þessum tvö þúsund milljónum gáfu Japanir 500, Bandaríkjamenn 350, Bretar 95 og Svíar 75,5, aðrir gáfu minna. Lauslega áætlað gáfu Japanir því um $4 á íbúa, Bandaríkjamenn rúmlega $1, Bretar tæpa $2 og Svíar hvorki meira né minna en ríflega $8 á íbúa! Hvað gerði ríkisstjórn Íslands hins vegar?
Hún gaf fimm milljónir króna! Það eru innan við $100.000, réttara sagt rétt rúmlega $81.713 á gengi gærdagsins. Þetta nær ekki þriðjungi úr dollar á Íslending. Meira að segja Norwich City sem stendur í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni gaf meira. Þeir gáfu um sex milljónir króna eins og öll önnur lið í ensku úrvalsdeildinni sem lögðu saman í púkk og reyddu fram eina milljón punda.
Ríkisstjórninni til varnar verður þó að segja að hún brást hratt við þó að upphæðin hafi verið skammarlega lítil. Auk þess var ekki komið í ljós hversu gífurlegt tjónið var þegar ákvörðunin var tekin. Það verður því að teljast líklegt að ríkisstjórnin láti frekara fé af hendi renna til þessa brýna verkefnis.
Vonandi mun ríkisstjórnin endurskoða afstöðu sína en við getum líka hjálpað til. Með því að hringja í 907-2020 verða dregnar eitt þúsund krónur af næsta símreikningi. Það er upphæð sem svarar einni bíóferð og ætti flestum ekki að vera skotaskuld úr því að snara þeirri upphæð fram. Menn geta svo einfaldlega hringt oftar séu þeir sérstaklega góðviljaðir.
Hringið!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008