Völvuspá fyrir árið 2005

Það er komið kvöld. Kertin eru að klárast, virðist okkur – ritstjórn Flugufótarins sem hefur haldið á vit ævintýranna í dimmu húsasundi einhvers staðar í miðbæ Reykjavíkur. Við eigum stefnumót við Völvu Koskinkorvu, ungan og efnilegan spámiðil. Við berjum að dyrum og eftir dálitla stund kemur til dyranna kona, klædd litríkum kjól með tóbaksklút á höfðinu.

Vegna sviplegs fráfalls Völu Kazcinski á árinu, sem lést með voveiflegum hætti við sláturgerð á heimili sínu, hefur Flugufóturinn náð samningum við laundóttur hennar og rússneska olígorkans Rómans Koskinkorva um að taka að sér hlutverk völvunnar í völvuspá Flugufótarins fyrir árið 2005. Fregnir úr spáheimum herma að Valva sé gríðarlegt efni í miðilsheimum og að hún slái Þórhalli léttilega við. Þær sögur ganga svo fjöllunum hærra að sjálfur Nostradamus hafi bylt sér í gröfinni af hrifningu yfir spádómum Völvu. En hvað hefur hún að segja um árið 2005?

Það er komið kvöld. Kertin eru að klárast, virðist okkur – ritstjórn Flugufótarins sem hefur haldið á vit ævintýranna í dimmu húsasundi einhvers staðar í miðbæ Reykjavíkur. Við eigum stefnumót við Völvu Koskinkorvu, ungan og efnilegan spámiðil. Við berjum að dyrum og eftir dálitla stund kemur til dyranna kona, klædd litríkum kjól með tóbaksklút á höfðinu. Neglurnar eru langar, hafa ekki verið snyrtar svo vikum eða mánuðum skiptir. Konan er með þykk gleraugu og stóra bauga undir augunum. “Gangiði í bæinn og veriði velkomnir í mín auðmjúku heimkynni”, segir konan þýðri og undarlega hljómfagurri röddu.

Við gengum inn fyrir síð perlutjöld og við okkur blasti framandi heimur. Lyktin var torkennileg, blanda af reykelsisilm og sætri angan af suðrænum ávöxtum. Það var ekki laust við að kaldur hrollur hríslaðist um okkur á þessum stað enda vísbendingar um hið ókomna og hina framliðnu á hverju strái. Valva gekk þungum skrefum að kringlóttu tréborði og settist í gamlan ruggustól með prjónuðu áklæði. “Svona nú veriði óhræddir, fáiði ykkur sæti – ég bít ekki”, hreytti Valva út úr sér. Við þorðum ekki annað en að hlýða henni og settumst í gamla tréstóla sem marraði hressilega í.

“Ég var búinn að spá því að þið myndið koma í kvöld. Sá það í grænu kristalskúlunni minni. Ég sá líka hversu margir þið myndið koma og hvenær en hins vegar sá ég ekki fyrir hversu myndarlegir þið eruð”, sagði Valva og bað okkur jafnframt að hafa hljótt á meðan hún færi í “trans”. Við bjuggumst ekki við hrósi frá henni og litum undrandi hver á annan. Óttin við hið óþekkta var þó hégómanum yfirsterkari og svitaperlurnar á andlitum okkar huldu önnur svipbrigði sem reyndu að brjótast í gegn.

Valva ranghvolfdi augunum og setti hendurnar í kross. Fitublettur í tóbaksklútnum á höfði hennar endurspeglaði daufri birtu frá grænni kristalskúlu á kringlótta tréborðinu. Strítt og ógreitt hárið laumaði sér undan klútnum eins og það væri að reyna að flýja það sem framundan væri. Skyndilega var eins og Valva lamaðist og úr henni væri allur þróttur. Hún lafði hreyfingarlaus í nokkrar mínútur fram yfir grænu kistalskúluna en rankaði svo við sér og öskraði hástöfum, svo við hrukkum í kút:

“Tvö þúsund og fimm, hvað mun þá gerast, bimbi rimbi rimm?”. Röddin hafði breyst. Hún hafði elst og hljómaði jafnframt kunnuglega. Við áttuðum okkur fljótlega á því að þarna var mætt rödd Völu Kazcinski, móður Völvu og góðkunningja okkar. Röddin hélt áfram:

“Það verður allra veðra von á árinu 2005. Veðurguðirnir munu sýna allar sínar bestu hliðar: regn, snjókoma, hvassviðri og sólskin. Ég sé fyrir mér ófærð vegna mikillar snjókomu. Holtavörðuheiðinni verður að loka núna í janúar, annars gætu menn og bílar setið fastir í snjónum. Mikið rok verður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum á árinu og líklega munu ferðir Brynjólfs, eða hvað nú dallurinn heitir, liggja niðri af þeim sökum. Sólin mun þó láta sjá sig og skína á borgarbúa í júní. Líklega mun hún skína í næstum 24 klukkustundir samfellt í þeim mánuði. Ég sé fyrir mér að menn fyrir norðan reyni að halda íþróttamót í tengslum við þetta óvenjumikla sólskin. Líklega í golfi frekar en í sundknattleik, ég átta mig þó ekki alveg á því.

Tík ein verður jafnframt mikið milli tannanna á fólki á árinu. Er hér um að ræða pólitíkina alræmdu. Framsóknarmenn munu koma illa út í skoðanakönnunum og forsætisráðherra mun mæla fyrir frumvarpi á Alþingi. Ung Framsóknarsnót mun líklega ganga í hnapphelduna á árinu og verður sá heppni samherji hennar í pólitík.

Ég sé jafnframt fyrir mér bæjarstjóraskipti í einu stærsta bæjarfélagi landsins, líklega í Kópavogi. Þar mun þungavigtarmaður í orðsins fyllstu merkingu, taka við lyklunum að bæjardyrunum.

Það verður formannsslagur í einum af stærri stjórnmálaflokkum landsins. Aðilar tengdir fjölskylduböndum munu berjast um hituna. Urriðinn mun tapa fyrir veiðigyðjunni. Afsakið þetta myndmál en ég sé þessa atburði ekki skýrari en þetta.

Úti í hinum stóra heimi mun áhrifamikill Bandaríkjamaður vekja umtal í Evrópu og víðar. Þessi maður mun ekki verða vel liðinn í Mið-Austurlöndum og hugsanlegt er að ákvarðanir hans verði umdeildar.

Ég sé fyrir mér jarðskjálfta í Japan sem og á hafsbotni. Það verða flóð í Bangladesh og átök fyrir botni Persaflóa. Snjóflóð verður á Íslandi og fellibylur í Bandaríkjunum.

Íslensku knattspyrnumaður mun vekja verðskuldaða athygli á Bretlandseyjum. Ég sé hann ljóslifandi skora mark á Brúnni. Ég átta mig þó ekki alveg á því hvaða brú það er. Auk hans mun fleira íþróttafólk vekja athygli á árinu 2005. Íslensk kona mun með aðstoð stangar vippa sér yfir háa slá og íslenskt handknattleikslandslið mun keppa á alþjóðlegu stórmóti snemma á árinu.

Íslensk fyrirtæki munu versla mikið við útlendinga á árinu. Íslenskir bankar munu kaupa erlenda banka og íslenskt flugfélag mun fljúga til útlanda. Íslenskir viðskiptamenn verða áberandi í Englandi og Iceland mun verða áberandi í verslunum Bretlands. Teinótt jakkaföt gætu þó dottið úr tísku og munu þá íslenskir viðskiptamenn sölsa um.

Kaupæði landans mun halda áfram. Bílasala verður mikil og heimabíókerfi sem flatskjáir munu rjúka út. Ákveðinn ríkur Íslendingur mun kaupa sér flottan bíl sem Séð & heyrt mun birta mynd af. Það verður hneykslismál á forsíðu DV snemma á árinu og ritstjórar blaðsins munu vekja umtal. Morgunblaðið mun hugsanlega flytja höfuðstöðvar sínar og í það minnsta einum leiðara þess á árinu verður rætt um Pútín og stjórnvöld í Rússlandi.

Og að lokum sé ég fyrir mér mann, hershöfðingja. Hann er íslenskur með gleraugu. Dökkhærður um sextugt. Ráðherra, leynilögregla allt í senn. Hann mun leggja fram hugmyndir að gjörbyltu skipulagi löggæslumála. Íslensk leyniþjónusta, öflugri víkingasveit og aukin þátttaka í alþjóðlegum verkefnum. Þessi maður mun jafnframt skrifa á heimasíðu sína um ónefndan stjórnmálamann úr flokki andstæðinganna.”

Að þessu sögðu lognaðist Valva út af og við læddumst hljóðlega í burtu, steinnumdir af ótta eða hrifningu yfir dularfullum atburðum kvöldsins. Það mun koma í ljós þegar líða tekur á árið hvort að Valva hafi rétt fyrir sér en við erum þess fullvissir að hæfileiki hennar sé mikill og höfum mikla trú á því að hún sé jafnvel sterkari spámiðill en Vala sáluga móðir hennar.

Ritstjórn Flugufótarins þakkar lesendum sínum, nær og fjær, lesturinn á árinu sem er að líða. Megi nýtt ár færa ykkur öllum gleði og gæfu. Takk fyrir okkur og gleðilegt nýtt ár!

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)