Nú er jólahátíðin að mestu yfirstaðin og nýju ári er nú fagnað með pompi og prakt. Fjöldi fólks hefur lagt á sig langt ferðalag til þess að vera hjá sínum nánustu yfir jólin, sem voru í styttra lagi í þetta skiptið ef litið er til frídaganna sem þeim fylgdu. Það er sífellt algengara að Íslendingar dveljist erlendis um jól í fjarlægð frá ys og þys sem ávallt virðast vera ríkjandi á Íslandi á þessum tíma árs. Kanarí er algengur áfangastaður Íslendinga og í sumum tilfellum eru heilu og hálfu bæjarfélögin saman komin á Kanarí um jól. Á mínu heimili er það siður að vera heima um jól, þrátt fyrir að stór hluti bæjarbúa sé á Kanarí, enda hvergi betra að vera en í faðmi fjölskyldunnar í sveitasælunni.
Hvað sem því líður langar mig að bjóða ykkur að skyggnast inn í jólastemminguna í litlu sveitarfélagi úti á landsbyggðinni. Í mínu tilfelli þá eru jólin tími þar sem hefðir og venjur eru ríkjandi. Á Þorláksmessu tínast fjölskyldumeðlimirnir heim af mölinni einn af öðrum þar til fjölskyldan er fullmönnuð. Þegar allir eru komnir heim er jólatréið sett upp, það skreytt og skrúðbúið munum sem fer sífellt fjölgandi með ári hverju og nú síðustu ár er tréið farið að svigna undan öllu góssinu. Friðarganga er farin eftir aðalgötu bæjarins og Heims um ból sungið við ráðhúsið og drukkið kakó með öðrum bæjarbúum. Síðustu jólakortin eru að berast í bæ á þessum tíma og fram á aðfangadag. Þar sem hefð hefur skapast að láta börnin hlaupa með kortin í hús innanbæjar í litla sveitarfélaginu. Nýjung var þó í kortaútburði þetta árið og komu syngjandi jólasveinar með einstaka kort sem var skemmtileg tilbreyting.
Aðfangadagur er heilagur í hjörtum fólks fyrir margra hluta sakir. Á mínu heimili hefst hátíðin á jólamessu í kirkju bæjarins, þar koma vel flest allir bæjarbúar saman, að þeim undandskyldum sem eru á Kanarí, og hlýða á fagra jólasöngva kirkjukórsins og guðspjall bæjarprestsins sem annað hvort svæfir fólk eða heldur því við efnið. Þetta árið hélt ég vöku minni, en faðir minn leið útaf þegar presturinn fór að vitna í orð Harry Bellafonte hjá Gísla Marteini um að Íslendingar væru nýrík þjóð sem mætti ekki tapa siðferðinu. Ég tók eftir að fleiri heimilisfeður fengu sér dúr undir guðspjalli prestsins, þá ekki síst þegar hann fór að vitna í aðra dagskrárliði sjónvarpsins. Það var augljóst að prestinum hafði leiðst upp á síðkastið og setið og gónt á sjónvarpstækið eins og við hin. Mér fannst spjallið nokkuð gott hjá honum í ár og er þetta í fyrsta skipti sem ég taldi ekki ljósaperurnar í loftinu í jólamessunni, en það hef ég gert síðastliðin ár til þess að halda mér vakandi. Að messunni lokinni var rokið heim og skóflað í sig jólamatnum á methraða eins og okkur Íslendingum er einum lagið og að því búnu var farið í að taka upp pakkana og þar á eftir jólakortin. Þegar þetta var yfirstaðið hreiðraði fjölskyldan um sig fyrir framan arineldinn.
Á miðnætti pússaði fjölskyldan sig upp að nýju og arkaði í miðnæturmessu hjá kaþólsku nunnunum, en trúarlífið er fjölbreytt í bænum þrátt fyrir mannfæðina. Þetta árið var metmæting hjá bæjarbúum og þurftu nunnurnar að hafa sig allar við að bera inn auka stóla til þess að geta tekið á móti fjöldanum. Okkur dömunum í fjölskyldunni var að sjálfsögðu komið fyrir á fremsta bekk við hliðina á hinum nunnunum, en minnstu munaði að við hefðum verið inn vinklaðar í reglu systra okkar áður en messan var afstaðin. Jólamessa kaþólikkanna var mun líflegri og skemmtilegri en sú sem við sóttum fyrr um daginn og það fékk mann til að hugleiða hvað það væri sem maður væri að leita eftir þegar maður færi til kirkju.
Að seinni messunni lokinni um klukkan tvö að morgni var farið heim og húsmóðirin hitaði kaffi og skellti á rjómatertu fyrir fjölskylduna og gesti og var borðað þar til fólk leið útaf. Svona eru jólin í litlu þorpi á landsbyggðinni.
- Þessi blessaða veira er fordómalaus, reynum að vera það líka - 30. mars 2021
- Má ég faðma þig? - 13. janúar 2021
- Til hamingju Frú Vigdís - 15. apríl 2020