Leo var 8 ára gamall starfsmaður vefnaðarverksmiðju í Tennesse árið 1910. Það var fyrst árið 1938 sem Fair Labour Act bannaði börnum að vinna í Bandaríkjunum
|
Fólk hefur því miður fengið það á tilfinninguna að þeir hjálpi þeim sem eiga um sárt að binda með því að berjast gegn fyrirtækjum sem standa að rekstri í fátækum löndum. Grein í Morgunblaðinu í gær (þriðjudag) eftir Svavar Knút Kristinsson endurspeglar þessi viðhorf ágætlega þar sem hann telur hvern vesturlandabúa vera með þrjá þræla á samviskunni. Barátta Svavars og félaga skaðar því miður mest þá sem hafa það hvað verst og gagnast helst samvisku þessarra hugdjörfu baráttumanna. Þeirra sálarró er dýru verði keypt.
Fólk í þriðja heiminum er mjög jákvætt gagnvart erlendum fyrirtækjum enda koma þau með störf þar sem engin voru áður fyrr. Það liggur í augum uppi að ef betri kostur en þessar verksmiðjur væru fyrir hendi þá myndi enginn vinna þar. Þær eru þannig þar sem þeirra er mest þörf. Fólk í þriðja heiminum er mun hræddara við mótmælendur sem krefast aðgerða gegn þessum fyrirtækjum. Mótmæli frá réttlátum vesturlandabúum hafa nokkrum sinnum leitt til þess að fyrirtæki hafa lagt niður framleiðslu sína sem hefur aftur leitt til þess að þúsundir og tugþúsundir barna hafa orðið atvinnulaus og þurft að hafa fyrir sér með betlun og vændi.
Hagfræðingurinn Paul Krugman ritaði fyrir nokkrum árum um þetta mál og velti því fyrir sér af hverju indónesískur verkamaður sem saumar strigaskó fyrir 60 cent á klukkustund vekur miklu meiri óhug heldur en fátækur bóndi frá sama landi sem þénar 30 cent á klukkustund. Krugman kemst að þeirri niðurstöðu að vestrænu fólki finnst það vera óhreint á sálinni að einhverju leyti vegna þess að það erum við sem kaupum strigaskóna og högnumst þannig á vinnu verkamannsins.
Krugman heldur áfram og útskýrir að það græðir enginn meira á veru fyrirtækja í löndum þriðja heimsins heldur en íbúar í löndum þriðja heimsins. Vöxtur framleiðslu í landi veldur þrýstingi á laun uppávið auk þess sem lífskjör batna.
Lönd þriðja heimsins stríða við fátækt, sjúkdóma og slæmt stjórnarfar. Það er ljóst að fólk í þessum löndum hefur það mjög slæmt. Tvær leiðir má nefna til þess að láta til sín taka: annars vegar að styrkja samtök eins og Rauða krossinn og SOS barnaþorp fjárhagslega og hins vegar að berjast fyrir lækkun tolla á vörum frá þessum löndum. Sú leið að hjálpa fólki í fátækum löndum með því að hafa af því vinnuna er líklegast það alversta sem hægt er að gera þeim.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021