Kramer – I am your father…
|
Um það munu flestir sammála, að Seinfeld-þáttaröðin var eitthvað það albesta sem sést hefir í sjónvarpi. Mætti jafnvel ganga svo langt að skrá þættina á pari við þá Frasier-bræður í Seattle-borg. Þótt einhvers konar mannjöfnun á Kramer og Niles væri með öllu óviðeigandi er ljóst að þessir ágætu menn eru aufúsugestir á heimilum landsmanna og synd að einstrengingslegir raunveruleikaþættir eru á góðri leið með að taka sjónvarpstæki landsmanna í herkví á kostnað á téðra höfðingja. Þótt misjafnar hugmyndir hafi litið dagsins ljós í Seinfeld-þáttaröðinni virðist hugmyndin um Festivus-hátíðina ætla að verða lífseigari en aðrar. Ef marka má nýlega frétt New York Times hefir hópur manna varpað venjulegum hugmyndum um jólahátíð fyrir róða og heldur nú Festivus-hátíðina í stað hinnar hefðbundnu jólahátíðar.
Hugmyndin er sennilega jafngalin og hún er skemmtileg. Hátíðin er haldin á Þorláksmessu ár hvert og í stað hefðbundins barrtrés er álstöng stungið í pott og látið þar við sitja. Grunnstef hátíðahaldanna eru svo að saka aðra fjölskyldumeðlimi um að valda öðrum vonbrigðum — og fangbrögð — en hátíðarhöldunum líkur ekki fyrr en húsráðandi hefir verið felldur á Ipponi í gólfið.
Vissulega öðruvísi jól.
Það skal ósagt látið hvort vinsældir Festivus-hátíðahaldanna eru komnar til að vera og hugsanlega fulldjúpt í árinni tekið að ætla að hugmyndin tákni fráhvarf frá venjubundnum gildum jólahátíðarinnar. Hins vegar ættu lesendur Deiglunnar að geta sammælst um að hugmyndin er nú svolítið svöl. Reyndar alveg eitursvöl og þannig mætti ætla að ungt fólk sem er að halda sín fyrstu jól muni jafnvel bregða út af venjunni og halda Festivus-hátíðina að ári.
Þótt ekki væri nema til að sjá móðursýkissvipinn á tengdó myndi tilgangurinn helga meðalið…
En til allrar hamingju fyrir hina staðföstu, sem hyggjast kúvenda hátíðahöldum heimilisins að ári, er regluvirki hátíðahaldanna opið fyrir túlkun. Þannig gaf Frank Costanza engin fyrirmæli í þáttunum um hversu há eða sver álstöngin (eða barrtrésígildið fyrir þá sem eiga erfitt með að halda þræði í pistlinum!) skuli vera. Einu fyrirmælin voru þau að undir engum ekki mætti skreyta álstöngina.
Og markaðurinn er skilvirkur: Yfir jólahátíðirnar var álverð í sögulegu hámarki á London Metals Exchange…
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007