Viktor Júsenkó fagnar sigri með stuðningsmönnum sínum í Kænugarði á sunnudaginn.
|
Afmyndað andlit Viktors Júsenkós, sigurvegara forsetakosninganna í Úkraínu, er orðið andlit vonar og frelsis. Ör forsetans eru vitnisburður um fjörbrot fráfarandi harðstjórnar og sigur hans verður öllum þeim sem berjast gegn oki og kúgun mikil hvatning. Eftir umfangsmikið kosningasvindl fráfarandi stjórnvalda, sem nutu afdráttarlauss stuðnings innan veggja Kremlar, reis úkraínska þjóðin upp og krafðist þess að síðari umferð kosninganna yrði endurtekin. Hæstiréttur landsins varð við kröfum Júsenkós og kjósendur fengu að ganga að kjörborði á nýjan leik síðastliðinn sunnudag.
Í þetta sinn voru alþjóðlegir eftirlitsmenn á einu máli um að framkvæmd kosninganna hefði verið með eðlilegum hætti. Tæplega 80% kosningabærra manna greiddu atkvæði og hlaut Júsenkó afgerandi kosningu sem forseti Úkraínu. Hann sigraði fráfarandi forsta, Viktor Janúkóvits, með tæplega átta prósentustiga mun, 52% gegn 44%.
Erfitt verkefni býður hins nýja forseta. Hann þarf að sætta ólíka þjóðfélagshópa og ríður þar mest á að rússneski minnihlutinn, sem hallur er undir Kreml, sætti sig við hina lýðræðislegu niðurstöðu. Júsenkó mun freista þess að taka upp nánara samstarf við Vesturlönd og jafnvel óska eftir inngöngu í ESB.
Sigur Júsenkós af ekkert minna en áfall fyrir Kremlarbændur og persónulegur ósigur Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta. Hann studdi fráfarandi harðstjórn Leoníds Kútsjma með ráðum og dáð og má í raun segja að harðstjórn þeirra Kútsjma og Janúkóvits hafi farið sínu fram með velþóknun Pútíns. Um þetta var ítarlega fjallað í pistli Pawels Bartoszeks frá 23. nóvember síðastliðnum, Kreml & Mafían vs. Úkraína og um stjórnarhætti Pútíns fjallaði Hörður Ægisson með skilmerkilegum hætti í pistli sínum í gær, Morgunblaðið og Pútín.
Leitt hefur verið að því sterkum líkum að andstæðingar Júsenkós, bæði í Úkraínu og í Rússlandi, hafi byrlað honum eitur það er afmyndaði andlit hans og ásjónu á aðeins nokkrum mánuðum. Þegar ekki tókst að ráða niðurlögum Júsenkó með þeim hætti beittu andstæðingar hans svívirðilegum kosningasvikum. Fyrstur til að lýsa yfir lögmæti þess skrípaleiks var vitaskuld Vladimír Pútín, forsprakkinn sjálfur. Þótt ýmsir reyni að halda uppi vörnum fyrir stjórnarfar Pútíns, þá hafa þeir haft mun meira til síns máls sem varað hafa við stjórnarháttum hans. Aðdáendur Pútíns hér á landi sem og annars staðar hljóta að staldra við í ljósi atburðanna í Úkraínu.
Það eru stjórnarhættir Pútíns og þeirra sem fylgja honum að málum sem markað hafa andlit frelsishetjunnar Viktors Júsenkós. Ásjóna verðandi forseta Úkraínu verður hvatning öllum þeim sem berjast við ok harðstjórna um allan heim. Barátta hans er líka áminning til okkar allra um að leikreglur lýðræðis eru grundvöllur hins frjálsa samfélags og að alltaf verða til þeir sem reiðubúnir eru til að fótum troða reglurnar í þeim tilgangi einum að halda völdum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021