Þorláksmessa er runnin upp og í hönd er að fara sá tími ársins þar sem flestir keppast um að gleðja ástvini sína og eiga með þeim góðar stundir. Á öldum ljósvakans hefur á aðventunni hefur verið mikið talað um rómantík í tengslum við jólaundirbúninginn. Væntanlega hefur sú umræða að einhverju leyti farið fram í því skyni að telja pörum trú um að hægt sé að kaupa rómantíkina í sambandið svona rétt fyrir jólin. Aðrir hafa ef til vill sannarlega séð köllun sína í að hvetja annað fólk til rómantíkur. Hvort heldur sem er finnst mér rómantíkin tilvalið umfjöllunarefni á þorláksmessu.
Rómantík er orð sem oftast vekur upp mjög jákvæðar hugsanir í hugum manna. Algengt er að fólk sjái fyrir sér einhverjar klisjur í tengslum við rómantík og má þar nefna sem dæmi kertaljósakvöldverð, gönguferð í fjöru við sólarlag, lautarferð í góðu veðri og þar fram eftir götum. Hugmyndir mínar um rómantík eiga líklega eitthvað skylt við þetta, en þó felur orðið rómantík í sér svo miklu meira en aðeins þessar stöðluðu myndir sem þegar hafa verið nefnd dæmi um.
Websters gefur tvær skýringar á orðinu rómantík. Önnur merkingin er sú sama og flestir þekkja, sú merking sem tengist tilhugalífinu og ástinni yfirleitt. Hin merkingin er: „To be fanciful and imaginative in thinking“, þ.e. að vera hugmyndaríkur í hugsun. Eftir að hafa flett upp orðinu „fanciful“í ensk-íslensku skólaorðabók Arnar og Örlygs sá ég að fanciful hefur aðrar merkingar en bara hugmyndaríkur. Merkingarnar eru t.d.: draumórakenndur, óraunsær, ómyndaður, staðlaus, skrautlegur, hugmyndaríkur og frumlegur. Þegar þessi hugtök eru skoðuð virðist orðið frumleiki sameina þau ágætlega og frumleiki er það sem mér hefur alltaf fundist þurfa að einkenna rómantík. Um leið og hugsunin og gjörðirnar eru orðnar hugsun og gjörðir einhvers annars, þ.e. hluti af staðlaðri mynd, hverfur rómantíkin.
Í bókmenntafræðinni í gamla daga var farið yfir rómantísku stefnuna í bókmenntunum. Þar lærði ég að rómantíkin hefði verið óraunsæ og rómantísk verk hefðu einkennst af draumum, óraunveruleika, þráhyggju, leyndu athæfi o.s.fv. Andstætt klassísku verkunum, eins og t.d. Faust, sem einkenndust af þeirri skoðun að maður ætti endalaust að keppast eftir meiru og meiru í lífinu og aldrei setjast niður ánægður með hlutskipti sitt, var sú skoðun ráðandi í rómantíkinni að maður ætti að fela sig á bak við drauma sína og lifa í nútíðinni. Ekki keppast eftir velgengni heldur eigin vellíðan byggðri á eigin draumum og þrám. Samkvæmt þessu er rómantíkin eins og skáldsaga, hún er aldrei sannleikur heldur frumlegur skáldskapur.
Ég held að hvorki orðabókarskýringar né gamli bókmenntafræðikennarinn minn nái að skilgreina nákvæmlega mínar hugmyndir um það hvað rómantík sé. Þó kemst bæði nokkuð nálægt því. Rómantík er ekki endilega eitthvað fallegt og ljúft á milli elskenda. Rómantík er hugarástand sem einkennist af draumórum, svolitlu óraunsæi, hugsjónasemi og frumleika. Þetta hugarástand getur aftur á móti leitt af sér ýmislegt gott, hvort sem það tengist ástinni, sköpun eða einhverju öðru.
Fólk er mismunandi rómantískt. Sumir eru alteknir af þessari rómantísku hugsun og láta allar sínar athafnir stjórnast af henni. Aðrir leyfa sér það sem munað að vera rómantískir öðru hvoru, og enn aðrir skilja engan veginn þennan hugsunarhátt. Því miður virðast síðustu tvær manngerðirnar vera orðnar all of algengar og sú fyrsta allt of fágæt. Í nútímasamfélagi virðist fólk aðhyllast frekar klassísku stefnuna sem minnst var á hér að ofan. Í öllum hraðanum í lífsgæðakapphlaupinu gleymir fólk oft að gefa sér tíma til að sökkva sér ofan í drauma sína, mynda sér eigin skoðanir á hlutunum og keppast eftir vellíðan fremur en velgengni og frama. Hugtakið rómantík felur ekki lengur í sér sjálfstæða hugsun, frumleika og hugsjónasemi og það er líklega ástæðan fyrir að flestir sjá fyrir sér einhverjar staðlaðar myndir þegar minnst er á hana. Þessar myndir, eins og sólarlagið, kertaljósakvöldverðurinn o.s.fv. eru lærðar en hafa í raun ekkert með rómantík að gera, ef hugsunin á bak við þær er ekki sjálfstæði og frumleiki.
Með þessum pistli vil ég ekki gera lítið úr þeim fallegu og jákvæðu, en þó stöðluðu, myndum sem koma upp í hugum fólks þegar minnst er á rómantík. Miklu fremur vil ég benda á að rómantík er svo miklu meira en hinar hefðbundu hugmyndir nútímans segja okkur. Rómantík getur verið eitthvað sem mótar hegðun okkar, ekki bara í samskiptum við hitt kynið, heldur í öllum athöfnum okkar, og jólin eru kannski betri tími en margur annar til að skipta út lærðum hugmyndum og hegðun fyrir sjálfstæði, frumleika og hugsjónasemi.
- Þrautaganga þingmáls - 11. júní 2021
- Af flísum og bjálkum - 25. apríl 2010
- Já-kvæði - 27. ágúst 2008