Nú um áramótin verða miklar breytingar þegar fyrirtækjum í raforkugeiranum verður gert skylt að greina á milli á framleiðslu, flutnings, dreifingar og svo sölu í bókhaldi. Auk þess munu fyrirtæki sem nota 100 kW eða meira geta valið sér raforkusala. Áramótin þar á eftir munu allir geta valið sér söluaðila og þar með er kominn grundvöllur fyrir alvöru samkeppni í raforkusölu til einstaklinga.
Samhliða þessum breytingum verður stofnað sérstakt hlutfélag, Landsnet hf, sem verður í eigu ríkisins og mun sjá um þær eignir sem tengjast flutningsnetinu (Háspennunetið). Frá því munu dreifingaraðilar taka við spennunni og dreifa til endanlegra notenda. Lagt er til að sama gjald verði hvar á landinu sem dreifingaraðilar fái orku frá fyrirtækinu. Fyrir dreifingaraðila sem nýta mikið magn og flytja þurfa orkuna um skamma vegalengd t.d. Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveituna þýðir þetta því hækkanir á flutningskostnaði. Ekki er tekið tillit til þess að það er hagkvæmara að nýta orkuna í grennd við virkjanastað. Í Svíþjóð er t.d. ódýrara að kaupa orku í Norður-Svíþjóð, þar sem flest orkuverin eru staðsett en í Suður Svíþjóð, þar sem mesta notkunin fer fram.
Orkufyrirtækin hafa fullyrt að þessar breytingar muni verða neytendum kostnaðarsamar, og að orkuverð muni hækka um allt að 10%. Hins vegar hefur orkustofnun metið mestu hækkunina upp á 2,5% hjá Hitaveitu Suðurnesja, auk þess sem einhver stofnkostnaður verði við uppskiptingu fyrirtækjanna. Til langs tíma er þetta þó ekki líklegt til að standast, þegar þau fyrirtæki sem geta framleitt og afhent orkuna (framleiðsla og sala), muni standa sterkast að vígi. Nú þegar höfum við séð hreyfingar í þessa átt, þar sem Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur tóku til sín stóran samning með Norðuráli.
Á Íslandi eru gríðarlegir möguleikar til að virkja og hafa minni aðilar smíðað margar virkjarnir á undanförnum árum með því að virkja bæjarlækinn. Lækurinn er ekki eini möguleikinn fyrir minni aðila að komast inn á þennan markað en jafnframt hefur verið rætt um minni jarðvarmavirkjanir, vindmyllur og sjávarfallavirkjanir auk þeirra hefðbundnu virkjana sem eru fyrir hendi. Séu þetta hagkvæmir kostir eigum við líklega eftir að sjá þá hér á landi á næstu árum.
Óneitanlega er ástandið í orkumálum á Íslandi mjög sérstakt miðað við það sem gerist í nágranna löndunum. Fyrir utan þær endurnýtanlegu orkulindir sem Íslendingar nota, þá fer um 70% orkunnar til stóriðju (að álverinu á Reyðarfirði meðtöldu). Hin 30% skiptast á aðra aðila, þar sem heimili standa fyrir á milli 7-8% af heildar raforkunotkun landsins. Þrátt fyrir að heimili séu hlutfallslega lítill markaður í magni, greiða þau mjög hátt verð fyrir orkuna miðað við stórfyrirtækin. Fyrir sölufyrirtækin er þetta því eftirsóttur markaður til að vera á. Víða erlendis er mjög hart barist um þennan markað, til dæmis er hægt að fara inn á heimasíður í Bretlandi sem sérhæfa sig í að finna besta verðið frá fjölmörgum söluaðilum og getur munað háum upphæðum á ári á milli aðila.
Reynslan erlendis sýnir að samkeppnin nýtist best meðalstórum og stórum fyrirtækjum, þeim sem um næstu áramótum verður gert kleift að velja söluaðila. Í dag eru mörg þessi fyrirtækja að velja á milli þess að nota olíu, og/eða ótrygga orku. Sjálfsagt mun þetta skipta máli þegar hægt verður að velja trygga orku á hagstæðari verðum og sleppa þá við að nota olíuna.
Önnur reynsla er að það virðist ákveðin tregða hjá einstaklingum að skipta frá þeim aðila sem þeir hafa verslað við í langan tíma, jafnvel þótt ljóst sé að verðið hjá einhverjum öðrum aðila sé töluvert lægra. Oft eru þetta beinlínis hindranir sem þau hafa beitt. Við opnun markaðarins á eftir að koma í ljós hvort fyrirtækin muni sækjast inn á svæði hvors annars, hvort ný fyrirtæki verði til. Gömlu fyrirtækin halda um dreifinguna á hverjum stað og halda því um gáttina fyrir fyrirtækin inn á markaðinn. Það verður fróðlegt að sjá hver þróunin verður og hvort breyta þurfi lögunum enn frekar til að ýta undir frekari samkeppni, best væri ef hægt væri að kaupa rafmagnið í einum pakka um leið frá sama aðila og myndi bjóða manni upp á símann, netið og vatnið.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020