Stolt íslenskrar knattspyrnu: A-landslið kvenna fyrir vináttuleik við Bandaríkin á síðasta ári.
|
Íslensk knattspyrna stendur í dag höllum fæti. Karlalandsliðið er í frjálsu falli niður styrkleikalista FIFA og íslensku félagsliðin hafa sjaldan verið veikari, bæði hvað fjárhag og faglega getu. Á sama tíma er knattspyrnan á heimsvísu í mikilli sókn og áhorfendatölur í flestum deildum á hraðri uppleið.
Það er einna helst að kvennaknattspyrnan á Íslandi hafi verið í sókn og hefur árangur kvennalandsliðsins undir stjórn Helenar Ólafsdóttur verið hreint út sagt framúrskarandi. Fyrir réttu ári fékk kvennalandsliðið og Helana Ólafsdóttir sérstaka viðurkenningu úr hendi þáverandi menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich, fyrir góðan árangur. Viðstaddir þá athöfn voru forystumenn KSÍ, þeir Eggert Magnússon, formaður, og Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri, ásamt nokkrum stjórnarmönnum KSÍ.
Fyrir fáeinum vikum tilkynntu þessir forystumenn KSÍ Helenu Ólafsdóttur að Knattspyrnusamband Íslands hefði ekki lengur not fyrir hennar krafta. Sögðu þeir við fjölmiðla að kvennalandsliðið hefði valdið vonbrigðum. Væntingar stjórnar KSÍ hafa greinilega verið miklar því árangur kvennalandsliðsins undir stjórn Helenar Ólafsdóttur er sá næstbesti sem kvennalandsliðið hefur náð. Meiðsl lykilmanna á borð við Ásthildi Helgadóttur á lokasprettinum gerðu það að verkum að Helenu og stelpunum í landsliðinu tókst ekki að gera það kraftaverk sem forysta KSÍ gerði augljóslega kröfur um.
Þannig eru vaxtarsprotar íslenskrar knattspyrnu verðlaunaðir af forystumönnum hreyfingarinnar og er þá nema von að vegur íslenskrar knattspyrnu í alþjóðlegum samanburði sé niður á við. Eins og áður sagði eru íslensk félagslið afar óburðug fjárhagslega í samanburði við evrópsk félag. Vissulega er Ísland fámennt land og félagsliðin hér verða aldrei stórklúbbar á evrópska vísu.
Það er hins vegar afar umhugsunarvert af hverju þær gríðarlegu efnahagslegu framfarir og sú mikla auðsköpun sem átt hefur sér stað í íslensku samfélagi síðustu 6-8 árin hefur ekki skilað sér inn í starf knattspyrnufélaganna á Íslandi. Íslensk fyrirtæki bjóða hinum evrópsku byrginn í sífellt ríkari mæli, af hverju ætti það sama ekki að eiga við um íslensk knattspyrnufélög?
Ein af ástæðunum fyrir þverrandi mætti íslenskra knattspyrnufélaga er sú, að sífellt meira af því fjármagni sem kemur inn í knattspyrnuna fer í rekstrarkostnað Knattspyrnusambands Íslands. Á meðan félögin berjast í bökkum fjárhagslega streymir sífellt meira fé inn í sjóði KSÍ. Þar á bæ vinna menn auðvitað í góðri trú að því að styrkja íslenska knattspyrnu en er fjármagnið ekki betur komið hjá félögunum sjálfum? Það eru jú félögin sem eiga KSÍ og sambandið hefur í raun engan sjálfstæðan tilverurétt. Þetta vill oft gleymast og menn láta eins og félögin séu til fyrir náð miskunn KSÍ en ekki öfugt.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að knattspyrnufélögin á Íslandi taki á sig rögg og brjótist út úr þeim viðjum sem hindra vöxt þeirra. Stór og öflug félög eru lykillinn að uppgangi knattspyrnunnar á Íslandi. Knattspyrnusamband Íslands á að vera stoðtæki fyrir félögin en ekki öfugt. Fjöreggið er hjá félögunum.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021