Ef allt væri eðlilegt myndu líklega flestir líta á fyrirsögn þessa pistils sem grín og glens sem ætti sér enga stoð í raunveruleikanum. Annað er hins vegar uppi á teningnum því að nýverið bárust þau tíðindi að ríkisstjórn Íslands hefði ákveðið, að tillögu forsætisráðherra, að kaupa mikinn fjölda skopmynda eftir tiltekinn teiknara.
Nánar tiltekið var um það að ræða, eins og segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu, að ríkisstjórnin hefði ákveðið „í tilefni 60 ára afmælis lýðveldisins Íslands og jafnframt í tengslum við 100 ára afmæli heimastjórnar að festa kaup á teikningum Sigmunds Jóhannssonar sem birst hafa í Morgunblaðinu um áratuga skeið“. Í fréttatilkynningunni kom jafnframt fram að teikningar Sigmunds væru á sinn hátt aldarspegill þjóðarinnar og mætti með þeim skoða sögu íslenskra stjórnmála ekki síður en atvinnulífs. Loks kom fram að heimildargildi teikninganna væri mikið, bæði fyrir fræðimenn og ekki síður almenning.
Í fréttum í gær kom svo í ljós að tékkinn sem ríkisstjórnin þurfti að skrifa fyrir þessum skopmyndum hljóðaði upp á kr. 18.000.000,- Ekki er þó að fullu ljóst, af fréttum að minnsta kosti, hvert andvirði tékkans fer, þ.e. hvað Sigmund fær mikið í sinn hlut og hvað Morgunblaðið, eða aðrir, fá.
Pistlahöfundur verður að játa fúslega að þessi skopmyndakaup komu honum verulega á óvart. Þótt hann geti ekki talist frjálshyggjumaður, í hefðbundnum skilningi þess orðs, þá getur hann engan veginn séð að það sé í verkahring ríkisvalds að taka þátt í skrípaleik sem þessum og eyða næstum tuttugu milljónum króna til þessa vitleysisgangs. Margt annað viturlegra væri hægt við þessa fjámuni að gera, svo ekki sé minnst á þann kost sem hefði verið skynsamlegastur að eyða þessum peningum bara ekki neitt. Halda að sér höndum.
Pistil þennan má alls ekki skilja svo að með honum sé verið að kasta rýrð á teikningar Sigmunds, enda þar á ferð afar fær teiknari og húmoristi. Sem sérlegur stuðningsmaður spés og sprells í alla staði fagnar pistlahöfundur því framtaki Sigmunds að sýna forystumenn þjóðarinnar, og aðra áberandi einstaklinga, í spéspegli í Morgunblaðinu á hverjum degi. Þessi aðdáun pistlahöfundar á verkum Sigmundar breytir því þó ekki að kaup íslenska ríkisins á teikningum hans er hreinn skrípaleikur. Er hér með skorað á Sigmund að teikna skopmynd þar sem kaup þessi verði sýnd í réttu ljósi, þ.e. spéspegli, því að þar eiga þau heima.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006