Mikilvægi erlendra tungumála fyrir jafn fámenna þjóð og Íslendinga er gífurlegt. Næst á eftir því að læra að lesa og skrifa er enskan eitt það mikilvægasta sem við lærum. Á enskunni komumst við víða enda er stór hluti mannkyns mæltur á það tungumál. Í síðustu viku var í birt í Bretlandi skýrsla um framtíð enskunnar. Sagt var frá hinum ýmsu niðurstöðum skýrslunnar á fréttavef BBC og kom þar meðal annars fram að þriðjungur mannkyns eigi eftir að stunda enskunám á næsta áratug, en það er tvöföldun frá árinu 2000. Næstum helmingur mannkyns, eða um þrír milljarðar manna, verður því samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar mæltur á ensku árið 2015.
Sókn enskunnar sem alþjóðlegs tungumáls gerist að einhverju leyti á kostnað frönskunnar, en heldur á eftir að draga úr notkun hennar sem alþjóðlegs tungumáls. Þýskan á hins vegar eftir að sækja í sig veðrið, sérstaklega í Asíu, en einkum þó eru kínverska, spænska og arabíska í sókn.
Fyrir örfáum árum var sú hárrétta ákvörðun tekin að breyta áherslum í tungumálanámi íslenskra grunnskólanema þegar upphaf enskukennslu var fært úr 7. bekk niður í þann 5. Upphaf dönskukennslu var á sama tíma fært úr 6. bekk yfir í 7. bekk. Enskan var þar með gerð að öðru tungumáli í stað þess þriðja, þótt ef til vill hafi hún þegar verið annað tungumál Íslendinga um árabil sökum engilsaxneskra áhrifa í dægurmenningu landans. Það má síðan færa fyrir því rök að hefja tungumálakennslu, þá sérstaklega enskukennslu, enn fyrr heldur en tíu ára en flest börn ættu þegar að hafa náð ákveðnum orðaforða úr textuðu barnaefni fyrir þann tíma.
Það sem undirrituð á hins vegar erfitt með að skilja er af hverju við erum enn að halda í dönskuna rúmum sextíu árum eftir að við losnuðum endanlega undan oki Dana. Jú, jú, sagan, hin sérstöku tengsl við Danmörku og Norðurlandasamstarfið, kunna einhverjir að stilla upp á móti. Þessar röksemdir verða sífellt léttvægari í mínum huga, ekki síst eftir að hafa búið í Danmörku í nokkurn tíma.
Það er ekkert launungamál að Íslendingum er sjaldnast tekið fagnandi í Danmörku. Fjölmiðlafár undanfarinna vikna í kjölfar sölunnar á Magasin sýnir það nokkuð vel. Ísland er sjaldnast tekið með í reikninginn og síst af öllu í alþjóðlegum samanburði eða þegar umræðan snýst um Norðurlönd. Þá eru það Svíþjóð og Noregur (og stundum Finnland). Við erum sett á sama bás og Færeyingar og Grænlendingar, kannski skör hærra. Þessi frændsemi, sem við höfum verið heilaþvegin með frá barnæsku, virðist vera meira á annan veginn.
Sá misskilningur virðist einnig ríkja á Íslandi að Íslendingar kunni dönsku eftir þessi sex eða sjö ár sem fara í það læra málið. Því er fjarri. Einhvern veginn virðist framburðarkennsla og talskilningur fara fyrir ofan garð og neðan í íslenskum skólum. Danska er sérlega erfitt tungumál að bera fram. Það er alkunna að Danir virðast gleypa annað hvert orð og oft þegar manni heyrast þeir segja eitt orð voru þeir í raun að bera fram fjögur. Með öðrum orðum ef danskan á að vera nýtanleg á fleiri stöðum en búðunum á Strikinu þarf aðeins meira til en íslenska dönskutíma og eina viku í Danmörku.
Danskan er varla heldur sá lykill inn í önnur skandinavísk tungumál eins og haldið er fram. Þegar danskan er komin eru norskan og sænskan eftir. Því þegar allt kemur til alls eru þetta ólík mál. Fram kom í frétt á Mbl.is í síðustu viku að Danir væru að hugsa um að taka upp dönskupróf fyrir þá Norðurlandabúa, sem hyggjast nema í Danmörku. Það hafi sýnt sig að Svíarnir eigi í erfiðleikum með dönskuna í dönskum háskólum.
Það er spurning hvort við eigum ekki að fækka dönskutímunum í íslenskum skólum eða hafa þá valkvæða á kostnað annarra tungumála. Væri ekki sniðugra að auka enn frekar vægi enskunnar og jafnvel taka upp spænsku?
Það er mikið verk að læra nýtt tungumál, sérstaklega þannig að unnt verði á viðunandi hátt að taka þátt í samræðum á viðkomandi tungumáli (að bjarga sér í verslunum eða geta bent á rétti á matseðli telst ekki með). Að læra dönsku gefur manni tækifæri á því að tala við um það bil fimm milljónir manna og kannski ef til vill fimm milljónir Svía og Norðmanna sem skilja tungumálið – og þá ef til vill helst á ,,norrænum samstarfsfundum” þar sem Íslendingar mæta sem áheyrendur og leggja oftast lítið til.
Þá má benda á það að flestir Íslendingar sem eru í námi í Danmörku stunda sitt nám á ensku og má þar nefna flesta verkfræðingana í framhaldsnámi í DTU og viðskiptafræðingana í CBS. Einnig hefur það ekki stoppað íslenska lækna hingað til að halda í framhaldsnám til Svíþjóðar þótt enga sænskuna hafi þeir lært.
Læri fólk hins vegar tungumál líkt og spænsku, þýsku eða frönsku, eykst fjöldi þeirra manna sem unnt er að ræða við umtalsvert, og ekki má gleyma því, að þá opnast dyr að fjölmörgum stærri mörkuðum og aðgangur inn í alþjóðastofnanir, líkt og Sameinuðu þjóðirnar eða stofnanir á vegum Evrópusambandsins. Við verðum að geta leyft okkur að hugsa lengra heldur en bara að næsta bæ.
Með því móti ættum við kost á samskiptum við stærstan hluta heimsins. Líka Dani, því við þá getum við alltaf rætt á ensku.
- Árleg mannekla - 18. september 2007
- Lítilla breytinga að vænta - 5. maí 2007
- Jarðgangagerð, opinber störf og niðurgreiðslur - 17. mars 2007