Á vettvangi íslenskra stjórnmála hefur hugmyndinni um ókeypis leikskóla varla verið hreyft af nokkrum flokki nema vinstri grænum. Virðast menn líta á þetta málefni eins og hverja aðra vinstri villu, líkt og ríkisrekstur og haftakerfi. Það er því áhugavert að frjálshyggjutímaritið The Economist, sem meðal annars er hlynnt lögleiðingu fíkniefna, skuli hafa tekið þetta mál upp á sína arma.
Í leiðara nýjasta tímarits Economist er fjallað um þetta mál og er þar lýst yfir stuðningi við þá stefnu breskra yfirfalda að auka afskipti sín af dagvistun barna og auka á ríkisstuðning á þessu sviði. Þótt ljóst sé af lestrinum að leiðarahöfundi er ekki sérstaklega ljúft að viðurkenna það, er niðurstaðan sú að þegar öllu sé á botninn hvolft sé uppeldi barna hluti af skyldum ríkisins.
Meginröksemdin fyrir afstöðu blaðsins byggist á því að ekki sé horft á niðurgreidda leikskólavistun sem aðstoð eða styrk við foreldrana. Skylda ríkisins er í þessu tilfelli við börnin sjálf, enda virðast rannsóknir sýna að leikskólavistun auki félagsþroska barna og bæti líðan þeirra.
Jákvæð áhrif af leikskólavistun barna virðist einkum mega rekja til fyrstu klukkutímanna sem þau eru í leikskólanum á hverjum degi. Hálfsdags vistun þriggja og fjögurra ára barna virðist hafa mjög jákvæð áhrif en heilsdagsvistun yngri barna síður (eða alls ekki). Stefnumótun ríkisins ætti að taka mið af því. Þar af leiðir að ókeypis hálfsdagsvistun eldri barna skynsamlegt stefnumál en ókeypis kornabarnageymslur síður, samkvæmt leiðarahöfundi.
Auk þess að telja upp röksemdir með þessari stefnu eru lögð fram tvenn rök sem blaðinu þykir mæla gegn henni. Fyrri röksemdin er að sjálfsögðu sú að þetta lykti af skandínavísku velferðarofstæki. Eflaust taka margir íslenskir hægrimenn undir þá röksemd en síður þeir á vinstri vængnum.
En það er athyglisvert að seinni neikvæða röksemdin (að mati The Economist) er sú að þessum aðgerðum sé ætlað að koma konum út á vinnumarkaðinn og þar með auka jafnrétti kynjanna. Þetta þykir blaðinu afskaplega slæmt, enda algerlega á móti jákvæðri mismunun og jöfnunaraðgerðum hvers konar. Það er þó líklegt að þessi röksemd fengi lítinn hljómgrunn á Íslandi utan fámennra hópa öfgafrjálshyggjumanna. Á Íslandi stendur öll þjóðin heils hugar á bak við fæðingarorlofslögin þrátt fyrir að þau séu dýr fyrir ríkið og setji, í þágu jafnréttis, hömlur á hvernig foreldrar nýta sér orlofið. Það er því í raun ótrúlegt að ekki skuli hafa myndast hér breið þverpólítísk samstaða um ókeypis leikskólavistun, enda stuðlar hún að jafnrétti – og er þar að auki góð fyrir börnin.
- Kostirnir við erlent eignarhald - 9. júní 2020
- Ertu til í að gera mér greiða? - 13. febrúar 2020
- Bambustannburstar til bjargar? - 20. janúar 2020