Samtök Iðnaðarins hafa verið dugleg að benda á það sem betur má fara, og hafa nú vakið athygli á kennitöluflakki, sem þeir kalla „Nýja ræningjagrímu“. Samtökin hafa tekið nokkur dæmi úr prentiðnaðnum og meðal
annars prentsmiðju í Hafnarfirðinum sem hefur verið með 4 kennitölur á undanförnum árum. Nú hafa samtökin birt auglýsingar um efnið og vakið athygli á málinu.
Kennitöluflakk er ekki nýtt af nálinni og fylgir takmörkuðu ábyrgðinni sem er innbyggð í hlutafélagakerfið. Eigendur hafa allt sitt á þurru á meðan fyrirtækið er látið rúlla og skuldir falla á verslanir og undirverktaka. Þó líður ekki á löngu þar til viðkomandi birtist aftur með nýja kenntitölu og tilbúinn aftur í slaginn með skuldlausa kenntitölu. Hver getur keppt við slík fyrirtæki, sem þarf ekki að greiða fyrir vörur og þjónustu?
Sú lausn sem samtökin benda á er að opinberir aðilar versli ekki við slíka aðila, en í raun getur það orðið mjög flókið. Erfitt getur reynst að safna upplýsingum um aðila sem stunda kennitöluflakk. Einn aðili sem hefur verið viðriðinn gjaldþrot, getur stofnað nýtt fyrirtæki í samstarfi við aðra aðila, óháða fyrra fyrirtæki, stofnað fyrirtækið í nafni annars aðila t.d. fjölskyldumeðlims eða stofnað fyrirtækið í gegnum annað óháð fyrirtæki.
Samtökin bentu jafnframt á þátt lánastofnana, án þess þó að nefna tiltekið dæmi. Það hlýtur að teljast mjög alvarlegt ef lánastofnanir lána slíkum aðilum sem skipt hafa um kennitölur ítrekað(líkt og með prentstofuna í
Hafnarfirði), án þess að viðkomandi virðist ná tökum á rekstrinum. Jafnframt er ábyrgðinni með þessu í raun velt yfir á aðra aðila þar sem lánastofnanirnar sleppa tilltölulega vel, en það eru birgjar og verktakar sem beri meiri hluta gjaldþrotsins.
Ábendingar Samtaka Iðnaðarins eru mjög góðar. Kennitöluflakk er víða gríðarlegt vandamál, sérstaklega fyrir smærri aðila sem eru aðilar að slíkum gjaldþrotum. Líklega liggur vandamálið ekki síst í því að víða er lægsta tilboði einfaldlega tekið, án þess að tekið sé tillit til þess hver raunverulegur kostnaður verktakans af verkinu er. Fyrirtæki, ríki og bæjarfélög geta oft orðið fyrir umtalsvert meiri kostnði vegna gjaldþrota slíkra aðila, í stað þess að borga aðeins meira og fá vöru og þjónustu frá aðila sem getur staðið við gerða samninga.
- Það er njósnað um þig - 24. febrúar 2021
- Nútímamaður - 11. júlí 2020
- Langa dimma vetur - 10. júlí 2020