Í hvert skipti sem líður nær forsetakosningum á Íslandi og ákveðinn rugludallur stefnir á framboð verða þær raddir sterkari að hækka beri þann fjölda undirskrifta sem frambjóðendum ber að safna. Til eru margir hlutir í stjórnarskránni þarfnast breytinga en umrætt atriði er ekki eitt þeirra.
Við stofnun lýðveldis þurfti frambjóðandi að hafa 15 manns sem hver um sig safnaði 100 undirskriftum honum til stuðnings. Í dag þarf frambjóðandi að hafa 15 manns sem hver um sig safnar handa honum 100 undirskriftum. Það er því erfitt að sjá að söfnun undirskrifta sé orðinn eitthvað auðveldari nú en áður.
Það er jafnerfitt að ná í 10 vatnsfötur úr Tjörninni og úr Atlantshafinu. Engu máli skiptir þá Atlantshafið sé mun stærra, svo lengi sem bæði eru töluvert stærri en það magn sem við viljum sækja. Á sama hátt verður það ekkert mikið auðveldara að safna 1500 undirskriftum í dag en fyrir 10 eða 20 árum.
Auk þess er það einhver fjarstæða að ekkert mál sé að safna t.d. 2000 undirskriftum, sem er eflaust lágmark ef menn vilja vera vissir um að fólk sem mann ekki hvernig kennitala þess endar svipti mann ekki draumnum. Hver af þeim sem les þetta getur til dæmis haldið því fram að það væri „ekkert mál“ fyrir hann að safna yfir 2000 undirskriftum? Ég öfunda þann mann af vinamergð eða pólítísku baklandi.
Margra vikna smölun tveggja tveggja framboða í seinustu Heimdallarkosningum þarsem tugir manna lögðu hönd á plóg afrekaði helming af þeirri tölu. Fylking í stúdentaráði hefur aldrei fengið yfir 2000 atkvæði. Þeir sem hafa tekið þátt í slíkri baráttu vita að 2000 manns er ekki bara einhver fjöldi sem maður fer í Kringluna og sækir.
Hvers vegna á að vera erfiðara að bjóða sig fram í það að verða kokteilboðafulltrúi íslensku þjóðarinnar en til dæmis til setu á Alþingi eða í Borgarstjórn? Völdin þar eru, jú, töluvert meiri.
Það er erfitt að sjá hvers vegna það ætti að vera sérstakt markmið að sem fæstir geti boðið sig fram í kosningum. Þau rök að nauðsynlegt sé að hafa töluna miklu, miklu hærri til að ákveðnir óæskilegir einstaklingar geti ekki boðið sig fram eru andlýðræðisleg. Mega þeir bara ekki bjóða sig fram og tapa ef þeir eru svona ómögulegir. Hver er hættan?
Er takmarkið þá að koma í veg fyrir að „mjög margir séu í framboði“? Hvaða máli skiptir það að margir séu í framboði? Að fylgið dreifist mjög jafnt á marga og einhver með fá atkvæði verði forseti? Bíddu vorum við ekki að tala áðan um einhverja fylgislausa jólasveina sem þvælast bara fyrir á kjörseðlinum, en ekki menn sem eru að fá alvöru fylgi?
Sú tilhneyging að láta tölu nauðsynlegra undirskrifta elta íbúafjölda hefur náð miklum vinsældum í Bandaríkjunum, þá sem hluti af viðleitni stóru flokkanna til að útiloka aðra frambjóðendur frá þátttöku í kosningum. Þetta haft ýmis fáranleg áhrif. Flokkar detta inn og út af kjörseðlum degi fyrir kosningar vegna þess t.d. að Demokrötum tókst að skrá inn marga nýja kjósendur. Sums staðar er miðað hlutfall af þeim sem kusu í seinustu kosningum og detta þá flokkar inn og út á tveggja ára fresti enda kjósa mun fleiri þegar kosið er til forseta en í sk. „mid-term elections“.
Sama hvað menn reyna að halda öðru fram þá er talan 1500 ekkert lægri nú en hún var fyrir 60 árum. Vissulega hefur hlutfallið lækkað. En tilgangur undirskriftasöfnunar er ekki að mæla hlutfallslegt fylgi við frambjóðendur. Til þess höfum við önnur tæki: Kosningar.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021