Skyldi þessi hamstur hafa hamstrað?
|
Áfengisgjald var eins og frægt er orðið hækkað á sterku víni og tóbaki fyrr í vikunni. Aðdragandi hækkunarinnar var í meira lagi skondinn en frumvarp það sem kvað á um hækkun gjaldsins var lagt fram á Alþingi rétt eftir klukkan 18 á mánudag í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk myndi hamstra sterka vínið kortéri fyrir hækkun.
Frumvarpið varð að lögum um tíu-leytið um kvöldið en samþykkt voru afbrigði frá þingsköpum til að keyra þetta merkilega mál í gegnum þingið. Enginn var á móti þeim afbrigðum. Ætlun þingheims náði því fram að ganga. Hamstrið var sem sagt hindrað. Eða hvað?
Þessi göfuga ætlan þingsins var nefnilega ekki alveg skotheld því að úrræðagóðir einstaklingar með Alþingisrásina í botni í sjónvarpstækjum sínum hefðu getað, ef vilji var fyrir hendi, komið með krók á móti bragði og skotist í þau tvö ríki sem opin eru á virkum dögum lengur en til klukkan sex. Þessir hefðu þó kannski þurft að hafa fyrir sopanum því að einu ríkin sem opin eru lengur en til klukkan sex á mánudögum eru í Grafarvogi (til kl. 18.30) og í Mosfellsbæ (til kl. 19). Þannig hefðu þeir sem búa í lengri akstursvegalend en 60 mínútur frá Mosfellsbæ ekki getað nýtt sér hugsanleg klókindi sín.
En fleira skondið skaut upp kollinum í tengslum við þessa hækkun áfengisgjalds. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lét hafa það eftir sér í fréttum í gær að hann teldi áfengishækkunina „áfangasigur“. Ástæðan er sú að bjór og léttvín hefði verið undanskilið hækkun á áfengisgjaldinu og þannig sé verið að taka undir sjónarmið hans um að lækka þurfi verð áfengra drykkja. Ansi er þetta skemmtileg nálgun hjá Sturlu en líklegt verður að teljast að hann sé þarna að tala um að um hafi verið ræða sigur fyrir Áfangahús SÁÁ, Miklubraut 1, og í þeim skilningi Áfanga-sigur, frekar en áfangasigur í almennri merkingu þess orðs.
Margt er skrýtið í merarhausnum og hækkun þessi er í meira lagi undarleg. Ríkisstjórn sem skreytir sig með skattalækkunarfjöðrum tekur sig til í einu vetfangi og halar inn 340 milljónum króna úr vasa þeirra sömu skattgreiðenda og fá tekjuskattslækkun á næstunni. Ríkið gefur og ríkið tekur.
- Skrílslæti í ráðhúsi Reykjavíkur - 25. janúar 2008
- Að dæma sig til áhrifaleysis - 22. janúar 2008
- Valgerður Sverris er sorry - 23. nóvember 2006