Talsmenn nauðungarfélags opinberra starfsmanna lýstu á dögunum miklum áhyggjur yfir því að kjör félagsmanna væru að batna til jafns við aðra landsmenn, með skattalækkunum. Þetta er enn ein ályktunin þar sem menn framarlega í verkalýðsfélagi kjósa að nota félagið til að leggja lóð á vogaskálar pólitískrar baráttu sinnar fremur en að halda sér við málefni sem skipta máli.
Á fundi SFR fyrir rúmri viku síðan samþykktu brúnaþungir trúnaðarmenn ályktun þar sem skattalækkunartillögur Ríkisstjórnarinnar voru gagnrýndar:
Hvað stéttarfélag starfsmanna ríkisins er að álykta um svona lagað er erfitt að segja. Hér er verið að lýsa ákveðinni pólitískri, fremur vinstrisinnaðri skoðun, sem erfitt er að sjá hvernig snertir starfsmenn Ríkisins, nema að því leyti að hún mótmælir kjarabótum þeirra. Það er nefnilega afar hæpið að allir starfsmenn Ríkisins haldi vöku af áhyggjum vegna komandi skattalækkana. Það er jafnvel afar hæpið þeir séu meirihluta.
Það væri því mun heiðarlegra ef menn skráðu sig einfaldlega í þann vinstriflokk sem þeim stæði næst hjarta eða stofnuðu enn einn og þrumuðu þaðan út hverri þeirri ályktun sem þeim sýndist, fremur en að nota til þess félög sem engin getur sagt sig í eða úr. Menn verða bara að gjöra svo vel og að greiða félagsgjaldið og hlusta svo á það hvaðeina sull sem frá félaginu kemur. Og Ögmundur kemur upp í pontu á þingi og segir: „Sjáið hvað ég er snjall, jafnvel BSRB er sammála mér!“
Það er hins vegar alveg merkilegt að þrátt fyrir að SFR telur það jaðra við íkveikju á þjóðarskútunni að taka minni upphæð af fólki ár hvert sér félagið ekkert athugavert við það að peningarnir renni milli handanna á ríkinu og svo aftur inn í vasa öreiganna í formi stórhækkandi launa. Launakröfur SFR eða annarra stéttarfélaga eru nefnilega sjaldan „olía á eld“, þar sem einungis er verið að „leiðrétta laun“ eða biðja um „sambærilegar hækkanir og þær sem aðrir hafa fengið“.
Af einhverjum ástæðum virðast næstum því allir sem hafa eitthvað að segja í verkalýðsmálum á Íslandi vera vinstrimenn. Það er auðvitað kannski lítið hægt að sakast við þá. Menn einfaldlega velja sér það framapot sem mest heillar. Hins vegar væri þess óskandi að meiri barátta yrði um toppstöður í verkalýðsfélögum þannig að fólk sem trúir á einkaframtakið og frelsi einstaklings hefði þar sína málsvara. Vonandi mundi þá gæta meira jafnvægis í umfjöllun félaganna um pólitísk dægurmál.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021