Nú er að störfum samninganefnd ríkis og sveitarfélaga um svokallaða tekjuskiptingu þeirra á milli. Þar sem ríkið lækkar stöðugt skatta á meðan sveitarfélögin hækka stöðugt skatta er erfitt að sjá annað en að markmið sveitafélaganna sé að fá leyfi ríkissins til þess að mega hækka skatta sína enn meira.
Í dag hafa sveitarfélög heimild til þess að innheimta á milli 11,24 og 13,03% í útsvar. Það er illskiljanlegt af hverju ríkið þarf að ákveða hversu mikið sveitarfélög mega innheimta í skatta. Sérstaklega eru neðri mörkin torskilin. Af hverju mega þau ekki lækka skatta niður fyrir 11,24%, en svona eru lögin í dag.
Það er ljóst að rekstur margra sveitarfélaga stendur illa. Það vekur þó upp spurningar að á sama tíma og frjálshyggjumenn skamma ríkið (réttilega) fyrir að vasast í of mörgum hlutum þá er of lítið gert af því að gagnrýna sveitarfélög fyrir of mörg vasaverkefni. Sveitarfélög eru mörg hver með fjölda nefnda að störfum sem þjóna engum lykiltilgangi og kosta offjár. Það eru klárlega margir hlutir illa komnir hjá sveitarfélögum og þar á meðal eru margir hlutir sem eiga hreinlega ekkert að vera í höndum opinberra aðila.
Frekar en að vera mikið að hugsa upp hvaða verkefni sveitarfélaganna væru betur fólgin í höndum einkaaðila þá er önnur hugmynd sem gæti sett þessar hugmyndir á hærra plan. Við gætum fengið hóp fólks sem er með góða hugmyndir um hvernig lágmarksríkið á að vera til að reka sveitarfélag.
Það væri því góð hugmynd ef t.d. Frjálshyggjufélagið myndi safna saman hópi manna (svona circa 740 manns) og flytja allir sem einn á Flúðir í Hrunamannahreppi. Í Hrunamannahreppi búa í dag 730 manns þannig að það ætti ekki að vera mikið mál að vinna meirihluta í næstu sveitarstjórnarkosningum og taka við stjórn hreppsins.
Frjálshyggjubærinn Flúðir með Gunnlaug Jónsson formann bæjarráðs og Friðbjörn Orra Ketilsson bæjarstjóra gæti orðið fyrirmynd annarra bæjarfélaga á Íslandi. Þar gæti ávísanakerfi tekið við úreltu grunnskólasamfélagi (ef það væri ekki hægt þá mætti til dæmis úthýsa grunnskólamenntun úr sveitarfélaginu og borga öðrum grunnskóla fyrir að veita ungum Flúðurum grunnskólamenntun). Hægt væri að afleggja með öllu íþrótta- og tómstundarráð og látið einkaaðila sjá um skemmtun ungviðisins og hægt væri að afleggja með öllu greiðslu fyrir nefndarsetu.
Það setur hins vegar strik í reikninginn að Alþingi hefur sett mörg lög sem skylda sveitafélög til þess að veita ákveðna þjónustu og mun Frjálshyggjubærinn Flúðir án efa þurfa að berjast fyrir rétti sínum að veita ekki óþarfa þjónustu sem markaðurinn getur veitt á hagkvæmari hátt. Skattalækkanir gætu einnig orðið erfiðar eftir að Gunnlaugur og hans menn hafa með hagræðingum lækkað skatta niður í 11,24% en þá væri hugmynd að í desember hvert ár færi Gunnlaugur Jónsson sjálfur í jólasveinabúningi í hvert hús í sveitinni með ávísun upp á endurgreiðslu bæjarins og skilaði þannig bæjarbúum ónýttu útsvari.
Það þarf að bregðast hratt við. Sameiningarnefnd Árna Magnússonar hefur stungið upp á því að Hrunamannahreppur sameinist þremur öðrum hreppum í nágrenninu (en slíkt myndi auka gríðarlega vandann við yfirtöku frjálshyggjunnar). Það er því ljóst að baráttuhróp frjálshyggjumanna til góðs fyrir sveitarfélög þarf að hljóma um öll héruð:
Til Flúða!
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021