Framsóknartíund

Tíund Fyrrverandi gjaldkeri Framsóknarflokksins tjáði sig á dögunum um styrktarkerfi flokksins sem virðist vera á þá leið að þeir framsóknarmenn sem fá vegtyllur þurfa að greiða fyrir þær í formi styrkja til flokksins.

TíundFyrrverandi gjaldkeri Framsóknarflokksins tjáði sig á dögunum um styrktarkerfi flokksins sem virðist vera á þá leið að þeir framsóknarmenn sem fá vegtyllur þurfa að greiða fyrir þær í formi styrkja til flokksins.

Væntanlega hefur gjaldkerinn fyrrverandi ekki verið að tala samkvæmt forskrift enda hefur ekkert heyrst í honum frá því að ummælin féllu. Það kom í hlut Viðskipta- og iðnaðarráðherra að svara fyrir þessa óvæntu uppljóstrun og reyndi hann að draga úr orðum gjaldkerans og þæfa málið. Honum tókst samt ekki betur til en svo að skilja mátti af orðum ráðherrans að innan Framsóknarflokksins væri sú óskrifaða regla við lýði að framsóknarmenn sem fá stöðuveitingar fyrir tilstuðlan flokksins þurfi að láta hluta af launum sínum renna til flokksins. Þetta fyrirkomulag er ólíkt hefðbundnu styrktarmannakerfi stjórnmálaflokka en alls ekki nýtt af nálinni í heimssögunni og alþekkt úr Mósebók sem hin svokallaða tíund.

Því miður var frásagnarfréttamennsku beitt þegar ráðherra var inntur eftir ummælum gjaldkerans og uppljóstrunin varð þar af leiðandi ekki eins lýsandi og almenningur hefði kosið. En hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og Framsóknarflokkurinn ætti að sjá heiður sinn í því að gera hreint fyrir sínum dyrum. Fjölmiðlar þurfa einnig að vera aðgangsharðari í málum sem þessum og láta sér ekki nægja einföld svör við spurningum sínum.

Einn helsti veikleiki fulltrúalýðræðis er veitingavaldið sem lýsir sér þannig að stjórnmálaflokkar keppast við að ná til sín sem mestum völdum til þess að geta verðlaunað duglega flokksmenn með stöðuveitingum og vegtyllum. Þetta er mjög óheppilegt því afleiðingin er sú að hæfustu mennirnir veljast ekki alltaf til ákveðinna verka á vegum samfélagsins (sem oft er greitt fyrir með skattpeningum). Ef meðlimir stjórnmálaflokks eru skyldaðir til þess að greiða ákveðið hlutfall af launum sínum til flokksins hefur flokkurinn beinan fjárhagslega hag af því að koma sínum mönnum í áhrifasstöður. Í sinni sterkustu mynd er slíkt fyrirkomulag hrein atalaga að lýðræðinu.

Það ætti að vera alger krafa í nútímasamfélagi að starfsemi og fjármál stjórnmálaflokka séu gegnsæ og furðulegt að hér á landi séu stjórnmálaflokkar ekki enn skyldaðir til þess að opna bókhald sitt.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)