Brú yfir Sundin gæti orðið eitt af kennileitum Reykjavíkur.
|
Skipulagsstofnun hefur nú gefið grænt ljós á lagningu 1. áfanga Sundabrautar sem tengja mun Reykjavík og Kjalarnes saman með brú yfir Sundin eða göngum sem lögð verða í hafsbotnin úti fyrir Sundahöfn. Leggur Skipulagsstofnun til að reist verði lágreist brú á landfyllingu innarlega í Kleppsvíkinni.
Sundabraut verður eitt mesta samgöngumannvirki sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu. Kostnaðurinn mun hlaupa á milljörðum en sérfræðingar hafa reiknað út að lagning brautarinnar sé „þjóðhagslega hagkvæm“ (en þessi tvö orð saman benda jafnan til að verið sé að réttlæta óréttlætanlega eyðslu á opinberu fé). Ekki er það ætlunin með þessum pistli að fara út í það hver eigi að borga fyrir mannvirkið en benda má á ágætlega heppnað mannvirki örfáum kílómetrum norðar sem byggt var og rekið er af einkaaðilum. Þá er lítill vafi í huga þess sem þetta skrifar að Sundabraut yrði mun hagkvæmari en ýmsar þær samgöngubætur sem ráðiðst hefur verið í á síðustu árum eða eru fyrirhugaðar.
Ætlunin með þessum pistli er gagnrýna það mat Skipulagsstofnunar að lágreist brú innarlega í Kleppsvíkinni verði betri en kostur en háreist brú utarlega í víkinni. Reykjavík er lágreist borg, lágreist og gisin. Kirkja á holti í miðri borginni, sem byggð var um miðja síðustu öld, gnæfir yfir borginni, þótt hún sé innan við hundrað metrar á hæð. Þegar ekki er gott veður og útsýnis nýtur ekki til fjalla og sjávar, þá er Reykjavík ekki falleg borg. Sumir hafa reyndar gengið svo langt að segja að Reykjavík sé ljót borg.
Af hverju er Reykjavík svona ljót? Voru Ingólfi svona mislagðar hendur við staðarvalið? Nei, það er mannanna verk á síðari tímum að Reykjavík er ljót borg. Og þá er ég ekki bara að tala um ákvarðanir sem teknar voru í skipulagsmálum borgarinnar á síðustu áratugum heldur ákvarðanir sem verið er að taka í dag. Ég er til að mynda ekki í nokkrum einasta vafa um það að komandi kynslóðir munu klóra sér í hausnum yfir forheimsku forfeðra þeirra sem lögðu sex akreina hraðbraut þvert í gegnum miðborgina í Vatnsmýrinni. Það eru sumsé ákvarðanir manna sem ráða því hvernig borgin lítur út og ákvarðanir í skipulagsmálum eru meðal afdrifaríkustu ákvarðana sem við felum kjörnum fulltrúum að taka.
Til eru dæmi um ákvarðanir í skipulagsmálum sem eru svo vel heppnaðar að þær hafa fegrað borgina og gert hana að borg en ekki þyrpingu mannabústaða. Ein slík er sú ákvörðun að reisa glerhvelfingu ofan á hitaveitutönkunum efst á Öskjuhlíðinni og koma þar fyrir veitingastað. Perlan, sem tekin var í notkun fyrir aðeins rúmum áratug, er í dag eitt helsta kennileiti höfuðborgarinnar – eða öllu heldur, eitt fárra merkilegra kennileita borgarinnar.
Því miður eru margir smáir í hugsun. Allt sem stendur upp úr eða skarar fram úr er eitur í þeirra beinum. Þótt sú tillaga Skipulagstofnunar um að reisa frekar lágreista brú innarlega í Kleppsvíkinni láti ekki mikið yfir sér og sé síður en svo stórkostleg tíðindi, þá verður að teljast líklegt að stjórnmálamenn muni frekar kjósa að halda sig við þá tillögu og að Sundabrautin verði sett í þann farveg.
Já, en er það ekki miklu ódýrari og betri lausn, kynni einhver að segja. Vera má að hún sé eitthvað ódýrari, þótt draga megi í efa að þar muni mjög miklu. Perlan hefði líklega kostað eitthvað svipað, þótt henni hefði verið holað niður sem ferningslag< steinkumbalda í eitthvert þýflendið í borgarjaðrinum. Ef til stendur að verja til verksins einhverjum milljörðum af almannafé, er þá ekki nær að búa til fallegt og stæðilegt kennileiti í höfuðborginni? Háreista brú sem setja myndi svip á borgina og vera til marks um tíðarandann á Íslandi í kringum árþúsundamótin, tíðaranda sem einkenndist af sköpunargleði og framkvæmdaþrótti. Mannvirki sem væri vitnisburður til komandi kynslóða um að núlifandi forfeður þeirra hefðu verið stórhuga og framsýnir. En því miður segir mér svo hugur, að moldarkofahugsunarhátturinn fái áfram ráðið og brúin verði lágreist mannvirki í samræmi við lágreista og gisna borgarmyndina. Kannski eiga þessar ljóðlínur Þórbergs fremur við um Reykvíkinga en nágranna þeirra á Nesinu:
lifa þar fáir og hugsa smátt
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021