Á síðustu tveimur vikum hafa verið til umfjöllunar þrjú mál sem manni finnst eins og hafi einhvern tímann verið í umræðunni áður. Pútín vill búa til stærri og betri kjarnorkusprengju en allir aðrir, Íranir reyna eftir fremsta megni að gerast úran-auðgarar og síðast en ekki síst vill dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, stofna íslenskan her. Er nema von að maður hugsi: Nei, ekki aftur!?
Ég var bara smá patti þegar kalda stríðið var í algleymi á níunda áratug síðustu aldar. Líklega var helsti eldurinn kulnaður en engu að síður voru samskipti risanna í austri og vestri ekki upp á hið besta. Eins og sumir muna og aðrir hafa lesið um í sögubókum snérist kalda stríðið í stuttu máli um það að byggja stærri og ógnvænlegri sprengju en hinn aðilinn til þess að minnka líkurnar á því að ráðist yrði á eigið land eða lönd vinveittra þjóða. Þessu vígbúnaðarkapphlaupi lauk sem betur fer með falli Sovétríkjanna í upphafi tíunda áratugarins. Á þeim tíma hélt maður að framundan væri betri tíð með blóm í haga – sæta lánga sumardaga. Í það minnsta trúði maður því að menn hefðu lært það að heimsbyggðin hefði ekki verið betri þegar sprengjukeppnin stóð sem hæst. Nei, svo virðist ekki vera. Í það minnsta virðist Pútín Rússlandsforseti ekki vera þeirrar skoðunar. Nýtt kalt stríð? Nei, ekki aftur!
Hussein reyndi ítrekað, að sögn Blair og Bush, að smíða stóru sprengjuna. Honum tókst það ekki og virðist hafa verið langt frá því miðað við það sem kom í ljós eftir innrásina í Írak. Þó honum hafi ekki tekist það var tilhugsunin um að honum tækist það kannski, svo slæm að nauðsynlegt var að ráðast inn í landið. Íranir hafa reynt að gerast úran-auðgarar, þó svo þeir segist allt í einu vera hættir því. Ekki nema þeir séu misskildir herfilega og í sakleysi sínu séu bara úra-nauðgarar? Allavega virðst markmið Íraka með tilraunum sínum hafa verið að smíða kjarnorkusprengju. Þetta mun að sjálfsögðu ekki verða vel liðið í vestri. Nú þegar hafa heyrst raddir frá Bandaríkjunum sem lýsa áhyggjum yfir hættunni sem stafað getur af Írönum. Nýtt Persaflóastríð? Nei, ekki aftur!
Síðasta mánudag lýsti dómsmálaráðherra Björn Bjarnason þeirri skoðun sinni að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Íslendingar þyrftu að skoða alvarlega að stofna íslenska leyni- eða öryggislögreglu. Þetta er ekki í fyrsta sinn, og ábyggilega ekki í það síðasta, sem Björn Bjarnason setur fram þessa skoðun. Hann hefur áður talað um möguleika þess að stofna íslenskan her. Hann hefur auk þess verið duglegur að auka valdsvið lögreglu í valdatíð sinni, samanber lög um hlerun án dómsúrskurðar o.f.l. Björn dreymir um her, það er ljóst. Hann telur a.m.k. nauðsynlegra að styrkja herlíki Íslendinga, Víkingaþjónustuna í stað þess að efla almenna löggæslu. Þetta staðfestist í fyrra þegar útgjöld dómsmálaráðuneytisins voru stóraukin til að standa straum af kostnaði við stærri og betur búna víkingasveit. Ég er eflaust ekki einn af fáum sem vonar að hugmyndir Björns nái ekki fram að ganga. Björn, ekki aftur!
Vonandi eru þessi þrjú dæmi ekki forsmekkurinn að því sem koma skal: nýju vígbúnaðarkapphlaupi og óöruggari heimi. Er ekki allavega kominn tími til að stórir strákir hætti þessum eilífa byssuleik og eyði orkunni sinni og peningum í hluti sem virkilega skipta máli? Svo ekki sé meira sagt hljóta a.m.k. Rússar og Íranir að hafa eitthvað þarfara við peningana að gera en eyða þeim í eina stóra sprengju. Nei, ekki aftur!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008