Konungurinn í Bútan er ekkert sérstaklega hress á kantinum…
|
Það þótti tíðindum sæta þegar tilkynnt var um að hið afskekkta konungsdæmi Bútan í Himalajafjöllum hefði bannað alla tóbaksnotkun í landinu frá og með síðastliðnum miðvikudegi. Þannig verða höfuðborgarhéraðið Thimphu og Samdrup Jongkhar í austurhluta landsins einu héruðin sem verða undanskilin banninu og hafa hörð viðurlög verið boðuð við tóbaksölu. Bútan er er eitt fátækasta land í Asíu og lifir meðalmaðurinn á innan við eitthundrað bandaríkjadölum á mánuði. Aðbúnaður þegna landsins er skelfilegur, stefna stjórnvalda er vafasöm og rammspillt embættismannakerfi gerir borgurunum lífið leitt — þannig að ekki var á eymd þeirra bætandi að taka af þeim tóbakið!
Einn af hverjum sex innfæddra lifir í útlegð. Frá árinu 1990 hafa yfir 100.000 Bútanar af nepölsku bergi brotnir verið hraktir úr landi enda er yfirlýst stefna stjórnvalda að breyta samsetningu þjóðarbrota í landinu þannig að téður hópur hefir þurft að flýja yfir landamærin til Nepal í flóttamannabúðir Sameinuðu þjóðanna.
Og þau flýja ekki til að komast í sígópásu!
Konungurinn, Jigme Singye Wangchuck (sem má sjá eldhressan með fjórum eignkonum sínum á myndinni), hefur leitt þjóðina í gegnum súrt og sætt og lagt ofurkapp á að varðveita einstakan þjóðararf og lagt sig í framkróka við að hámarka gleðina í landinu sem hann kýs að kalla verga þjóðarhamingju!
Ekki veit ég hvernig afskriftum á hamingju er háttað í Bútan — en það er sennilega efni í annan pistil.
Sem sagt, þrátt fyrir að það sé allt í tómu tjóni í landinu og mannréttindi fótum troðin er konungurinn stoltur af því að geta kallað landið hið fyrsta reyklausa í veröldinni!
Kæru lesendur, hér er eitthvað að forgangsröðuninni.
Þannig væri æðislega gaman ef þetta væri bara eitthvað jaðardæmi sem við á Vesturlöndum gætum hlegið að og haldið áfram að borða hamborgarana okkar. En því miður er viðlíka stefna að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum og ef fram fer sem horfir mun Jón Kristjánsson fljótlega leggja fram frumvarp til laga sem þrengir enn að tóbakslöggjöfinni á Íslandi.
Hressandi, ekki satt — og ekki leiðum að líkjast?
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007