Lengi var það alkunna að valdamesti maður veraldar sæti í hvítu húsi í Washington og gegndi embætti forseta Bandaríkjanna. Líklega hefur þetta aldrei verið raunin en nú er ekki einu sinni hægt að telja Bandaríkjamönnum sjálfum trú um að þetta eigi við lengur. Áhugi almennings þar vestra á komandi forsetakosningum er svo lítill, að flatneskjulegum frambjóðendum verður ekki einum kennt um. Michael Dukakis og George Bush eldri voru ekki sérlega aðsópsmiklir í kosningabaráttunni 1988 en þá var kosningaþátttaka engu að síður bærileg. Það hlýtur því að koma meira til.
Réttilega hefur verið bent á að forsetinn var í huga flestra Bandaríkjamanna sá sem hafði fingurinn á rauða hnappnum, valdið til að skipa fyrir um kjarnorkuárás. Þess vegna var fæstum sama um hver maðurinn væri, þótt langur vegur sé frá því, að ætíð hafi valist til starfans einhver skynsemiströll. Nú er kjarnorkustríðshættan fjarlæg og friðvænlegra er í heiminum en um all langt skeið. En það dugar þó ekki að til skýra tilvistarkreppu bandaríska forsetaembættisins.
Svo virðist sem almenningur hallist æ meira að því, að raunveruleg samfélagsleg völd séu ekki lengur á hendi stjórnmálamanna, heldur ráði mun sterkari öfl þar för. Stjórnarhættir Alans Greenspans, seðlabankastjóra Bandaríkjanna, hafa meira um heimilisbudduna að segja en nokkuð annað. Og þeir sem ekki eru helteknir af lífsgæðakapphlaupinu í efnalegum skilningi, líta fremur til hæstaréttar Bandaríkjanna en Hvíta hússins, annað hvort í von um breytingar eða íhaldssemi. Stjórnmálamenn leita á náðir fjölþjóðlegra risafyrirtækja en ekki öfugt eins og lengi tíðkaðist. Hverjum hefði t.a.m. dottið í hug fyrir fáum árum, að þýskt bílafyrirtæki gæti ráðskast með ríkissjórn breska heimsveldsins og haft hana að fífli í kjölfarið?
En nú kynni einhverja að spyrja, af hverju almenningur fylkir sér ekki um þá stjórnmálamenn sem vilja snúa þessari þróun við? En það er einmitt mergurinn málsins; almenningur vill ekki snúa þessari þróun við. Hagur almennings í Bandaríkjunum hefur batnað í réttu hlutfalli við minnkandi áhrif stjórnmálamanna og aukið frjálsræði markaðsaflanna. Í megindráttum er fólki því sama hver situr í hvíta marmarahúsinu í Washington, svo lengi sem viðkomandi sé nokkuð heill á geði og tiltölulegur hlynntur frjálsum markaðsbúskap.
Hvorki Al Gore né George Bush mun valda straumhvörfum í forsetaembætti, flestum er það líklega ljóst. Kosningabaráttan mun bera keim af því að báðir eru fulltrúar áframhaldandi ástands, þótt hvorugur segist vera það. Það eina sem getur vakið áhuga almennings á þessum kosningum, er að kosningabaráttan verði tvísýn þegar líða tekur á. Jöfn keppni vekur alltaf áhuga almennings, hvort sem um er að ræða körfubolta eða embætti valdamesta manns veraldar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021