Þótt afhroð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, undir forystu Björns Bjarnasonar, hafi verið sjálfstæðismönnum um land allt ákaflega þungbært náðist mjög áhugaverður árangur víða annars staðar. Sérstaklega er athyglisvert að skoða niðurstöðu í þremur sveitarfélögum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigra, jók við sig fylgi og vann meirihluta. Þetta eru Reykjanesbær, Mosfellsbær og Snæfellsbær.
Í Reykjanesbæ vann Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Árna Sigfússonar, stórsigur. Flokkurinn fékk 52,8% atkvæða og sex menn í bæjarstjórn. Þetta er mikil fylgisaukning frá síðustu kosningum en þá fékk flokkurinn 44,9%. Úrslitin 1998 voru einnig góð fyrir D-listann því þá fjölgaði fulltrúum D-lista úr fjórum í fimm.
Úrslitin í Reykjanesbæ eru töluvert betri en menn þorðu að vona. Í síðustu Gallup könnun fyrir kosningar mældist flokkurinn með 49,8% fylgi en reynslan frá því fyrir fjórum árum benti til þess að Sjálfstæðisflokkurinn næði ekki meirihluta því þá hafði flokkurinn töluvert betri stöðu í skoðanakönnunum á sama tíma en skilaði sér ekki á kjördag. Markviss og skipulögð vinna á síðustu dögunum auk frammistöðu Árna Sigfússonar í sjónvarpskappræðum við oddvita hinna fylkinganna virðista hafa dugað til þess að tryggja þennan árangur en einungis vantaði um 50 atkvæði til þess að ná inn sjöunda manninum í bæjarstjórn. Árni Sigfússon hefur sagt í viðtölum að hann hafi gert sér vonir um að tryggja fimmta manninn í sessi en eins og áður segir munaði litlu að sjöundi maður D-listans næði inn. Ljóst er að krafturinn í kosningabaráttunni fleytti D-listanum langt en mikil fagmennska einkenndi kosningabaráttuna í Reykjanesbæ og gríðarlegur fjöldi manna var virkjaður í þágu framboðsins. Þá er þetta mikill persónulegur sigur fyrir Árna sem náði mikilli fótfestu í bænum á skömmum tíma.
Í Mosfellsbæ bætti Sjálfstæðisflokkurinn miklu fylgi við sig náði hreinum meirihluta með 52,5% atkvæða sem er gríðarleg fylgisaukning. Flestir eru sammála um að Raghneiður Ríkharðsdóttir, efsti maður á D-lista, hafi slegið í gegn og á hún mikinn þátt í þessum árangri. Síðast fékk D-listi 39,1% atkvæða svo enginn þarf að efast um að þarf vannst mikið þrekvirki.
Í Snæfellsbæ fékk Sjálfstæðisflokkur um 60% atkvæða. Leiðtogi D-listans þar er Ásbjörn Óttarsson og hefur hann setið í bæjarstjórn í átta ár. Á þessum tíma hefur mikil uppbygging átt sér stað í bæjarfélaginu. D-listinn bætti um 4% við sig frá því síðast en þá var fylgisaukningin um 20%. Þessi árangur er að miklu leyti til kominn vegna frábærra starfa Ásbjörns og þeim starfsaðferðum sem hann hefur þróað í kosningabaráttum flokksins þar sem jákvæður málflutningur helst í hendur við mjög skipulagða og agaða vinnu.
Það er ljóst að niðurstaða kosninganna í Reykjavík sýnir að eitthvað þarf að breytast í kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins þar ef flokkurinn ætlar að ná þar meirihluta. Mikið fylgistap í tveimur af höfuðvígjum flokksins, Seltjarnarnesi og Garðabæ, eru alvarleg skilaboð um að flokkurinn þurfi að endurskoða starfsaðferðir sínar til þess að ná árangri því þótt þar hafi unnist meirihluti þá er fylgistapið áhyggjuefni. Hins vegar sýna dæmin um stórsigra flokksins annars staðar að ekki er öll nótt úti enn þótt undanhald flokksins í Reykjavík sé staðreynd. Ekki er öll nótt úti enn ef sjálfstæðismenn í öðrum sveitarfélögum taka sér vinnubrögðin í Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og Snæfellsbæ til fyrirmyndar.
- Uppgjör og ábyrgð - 15. apríl 2010
- Evrópusambandið í hlutverki handrukkara - 13. nóvember 2008
- Standa þarf vaktina - 26. september 2008