Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur nú tekið á sig á ábyrgð á dauða 118 rússneskra sjóliða sem fórust með kafbátnum Kúrsk. Þetta er afar göfugmannlega gert hjá forsetanum og án efa mikil huggun fyrir ættingja sjóliðanna. Sólbrúnn og sællegur eftir sumarleyfi við Svartahaf dúkkaði Pútín skyndilega upp við nyrsta Dumbshaf til að sýna hluttekningu sína með syrgjendum.
Á sama tíma greindi norskur kafari, sem tók þátt í björgunartilraununum, að auðvelt hefði reynst að opna neyðarlúgur kafbátsins þegar til kom. Áður höfðu Rússar sagt svo mikið laskaðar að ógjörningur væri að opna þær. Nú er talið að kafbáturinn hafi sokkið föstudaginn 11. ágúst en ekki laugardaginn 12. eins og hingað til hefur verið haldið fram. Lífsmark var með einhverjum skipverjum allt þar til þriðjudaginn 15. ágúst. Eftir að norsku kafararnir komu á staðinn laugardaginn 19. ágúst tók það tvo daga að opna neyðarlúgur kafbátsins.
Það átakanlegasta við þetta mál er að á meðan síðustu skipverjarnir börðust fyrir lífi sínu á botni Barentshafs, fór öll orka rússneskra yfirvald í úreltan stríðsleik. Erlend aðstoð var afþökkuð vegna hættu á að útlendingarnir myndu komast á snoðir um helgustu leyndardóma rússneska herveldisins. Háttalag Pútíns á ekki að koma neinum á óvart. Það fyrsta sem menn læra innan KGB er að setja hagsmuni ríkisins í öndvegi og mannúð er ekki á námskránni. Pútín tók á vandamálinu eins og góðum og gegnum KGB-agenti sæmir. Hefðu löngu dánir yfirmenn hans eflaust verið stoltir af afsprengi sínu – afsprengi sovétsins – sem lét ekki tilfinningar hlaupa með sig í gönur heldur stóð vörð um hagsmuni Ríkisins.
En viðbrögð almennings í Rússlandi við framkomu stjórnvalda vekja vonir um að gildi einstaklingsins fari vaxandi í rússneskri þjóðarsál. Það er mat DEIGLUNNAR að Kúrsk-slysið og eftirleikur þess, verði einn helsti áfangi rússnesku þjóðarinnar í að losa sig úr fjötrum fjöldahyggju og mannvonsku sem haldið hafa þjóðinni í heljargreipum síðustu áratugi – og gera greinilega enn.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021