Sennilega kannast ekki margir við nafnið Friðþjófur Max Karlsson en hann fær tvímælalaust útnefninguna starfsmaður mánaðarins – eða ársins, ef því er að skipta. Friðþjófur Max á langan starfsaldur að baki hjá Byggðastofnun og er einn tryggasti starfsmaður stofnunarinnar frá upphafi. Trygglyndi Friðþjófs ríður reyndar ekki við einteiming, því nú er staðfest að hann ER tryggasti starfsmaður Byggðastofnunar fyrr og síðar – og skákar í þeim efnum sér hærra settum mönnum innan stofnunarinnar, sem ættu þó að fá meira í sinn hlut fyrir að sýna Byggðastofnun þó ekki væri nema örlítinn tryggðarvott.
Friðþjófur Max Karlsson er nefnilega sá eini af 15 fastráðnum starfsmönnum Byggðastofnunar sem ætlar að fylgja henni norður á Sauðárkrók. Svona menn á náttúrlega að verðlauna; þeir eru sannir fótgönguliðar hugmyndafræðinnar sem þeir standa fyrir og trúa á. Hinir æðstu eru nefnilega ekki eins sanntrúaðir, fyrir þeim var byggðastefnan bara lífsviðurværi og þegar lífsviðurværið flyst um set, hefja þeir bara leit að öðru lífsviðurværi – á mölinni. Kannski er það þess vegna sem byggðastefnan hefur brugðist; hinir æðstu hafa ekki haft neina trú á henni. Nú kemur í ljós að holdgervingur byggðastefnunnar, Friðþjófur Max, fékk of litlu að ráða um stefnuna – hann var bara yfirmaður rekstrarsviðs.
Fyrirhugaður flutningur Byggðastofnunar til Sauðárkróks er táknrænn fyrir það klúður sem byggðastefnan er. Einungis 6,7% starfsmanna stofnunarinnar hugnast að búa á stað norður í landi sem ber það afdalanafn Sauðárkrókur. Byggðastefnan hefði kannski gengið upp ef allir væru eins innrættir og Friðþjófur Max Karlsson – reiðbúnir að fylgja hugsjóninni fram í rauðan dauðann – jafnvel norður á Sauðárkrók. Segja má að sama kerfisvilla sé innbyggð í byggðastefnuna og í kommúnismann sáluga – það gleymdist að gera ráð fyrir mannlegum fjölbreytileika og vilja einstaklingsins.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021