Að undanförnu hefur þess gætt sem stjórnmálaskýrendur kalla þýðu í samskiptum ríkjanna tveggja á Kóreuskaganum; Norður- og Suður-Kóreu. Svo hefur virst sem Norður-Kórea sé að opnast lítið eitt eftir áratugalanga einangrun. Lýsandi fyrir þessa óvæntu opnun var forsíðufyrirsögn á The Economist á dögunum: „Greetings earthlings!“ og undir var mynd af Kim Yong-il, almætti íbúa í Norður-Kóreu. En í gær gerðust atburðir á alþjóðaflugvellinum í Frankfurt í Þýskalandi sem sýna að umrædd þýða er ekki mæld á neinn venjulegan hitamælikvarða.
Sendinefnd frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, sem var á leið á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York, snéri heim í fússi eftir að starfsmenn bandaríska flugfélagsins American Airlines gerðu ítarlega leit á nefndarmönnum og í farangri þeirra. Fyrir sendinefndinni fór Kim Yong-nam, sem kallaður er þingforseti Norður-Kóreu, en hann átti verða hæst setti ráðamaður Norður-Kóreu til að heimsækja Bandaríkin.
Þannig er mál með vexti að Norður-Kórea er enn á s.k. svörtum lista Bandaríkjastjórnar yfir lönd sem telja má líkleg til hryðjuverka. Starfsfólk American Airlines brást við með þeim hætti sem því er uppálagt af bandarískum flugmálayfirvöldum sem geta ítrustu öryggiskröfur varðandi frá farþega frá löndum á áðurnefndum svörtum lista. Sendinefnd flaug til Peking í Kína [hvert annað?] og var síðan sótt þangað af sérstakri flugvél frá Norður-Kóreu.
Yfirvöld í Norður-Kóreu voru fljót setja fram samsæriskenningar vegna málsins. Aðstoðarutanríkisráðherra landsins, Choe Su Hon, sagði að atvikið hefði aldrei komið til ef ekki hefði verið fyrir þrautskipulagt og yfirvegað samsæri af hálfu yfirvalda í Bandaríkjunum. Sendiherra Norður-Kóreu hjá SÞ sakaði Bandaríkjamenn um að „haga sér eins og fanta sem bæru enga virðingu alþjóðareglum og siðum.“ Þetta mál allt saman hefur þótt hið versta klúður frá diplómatísku sjónarhorni. Árþúsundsráðstefna SÞ í New York átti að marka upphafið að góðum samkskiptum ríkjanna. Kim Dae-jung, forseti Suður-Kóreu, hafði þegar skrifað ræðuna sem hann ætlaði að flytja á fundinum og fara brot úr henni hér á eftir í lauslegri þýðingu:
„Hið nýja árþúsund hefst á kraftaverki á Kóreuskaganum. Heit sólin bræðir nú niður ísvegginn sem skilið hefur að norður og suður síðustu 53 árin.“
Það er grátbroslegt að þessi fleygu orð skuli missa merkingu sína vegna þess að bandarískar flugfreyjur kröfðust þess að miðaldra karlmenn frá Norður-Kóreu færu úr yfirhöfnum og skóm áður en þeir fengju að fara um borð í flugvél.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021