Enn á ný er fátæktarhugtakið komið í umræðuna. Nú hafa verið sett á laggirnar samtök sem berjast eiga gegn þessum vágesti í íslensku samfélagi. Fyrr á þessu ári var þessi umræða einnig fyrirferðarmikil og þá sagði framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi að fátækt væri verulegt vandamál, þar sem tugþúsunir næðu ekki endum saman um hver mánaðamót. DEIGLAN blandaði sér í þessa umræðu með pistli í 18. tbl. 3. árg., sem kom út 14. febrúar síðastliðinn. Þar sagði m.a.:
„Að ná ekki endum saman í þessu samhengi hefur ekkert að gera með fátækt. Að ná ekki endum saman er að eyða meira en maður aflar, og sú árátta hrjáir fólk í öllum launaflokkum. Fátækir eru þeir hins vegar sem ekki tekst að sjá sér og sínum farborða og komast ekki af án utanaðkomandi aðstoðar. Því miður á þetta við um fólk hér landi, en sem betur fer skiptir það ekki tugþúsundum.
Þeir sem láta slíkt í veðri vaka eru í raun að vinna gegn málstað þess fólks sem býr við verstu kjörin, fólksins sem er virkilega fátækt. Þetta mætti kalla gengisfellingu fátæktarhugtaksins. En framkvæmdastjóri Rauða krossins er ekki einn um þetta, því bæði biskup og forseti Íslands hafa lagt sitt af mörkum í þessari umræðu. Samkvæmt þeirra predikunum er íslenskt þjóðfélag þjakað af óréttlæti og misskiptingu. Þó er það svo, að óvíða á byggðu bóli ríkir eins mikill efnahagslegur jöfnuður með mönnum eins og hér á landi.
Aðalatriði málsins er að fólk temji sér að nota þau hugtök sem við eiga hverju sinni. Það gefur augaleið að hugtakið fátækt þarf að þynna verulega út, eigi tugþúsundir Íslendinga að falla undir það. Betra er að nota önnur hugtök – jafnvel þótt það þýði að viðtalið komist ekki að fyrr en í fjórðu eða fimmtu frétt.“
Kristján G. Arngrímsson, höfundur Viðhorfs í Morgunblaðinu í dag, fjallar um stofnun Samtaka gegn fátækt og hinn miskunarlausa markaðsbúskap sem hann telur tröllríða íslensku samfélagi um þessar mundir. Segir Kristján m.a.:
„En vandinn er bara sá, að hvorki Davíð né aðrir ráðherrar eða þingmenn geta gert nokkuð í málinu. Stjórnmálamenn, rétt eins og aðrir, eru ofurseldir rikjandi hugsunarhætti í samfélaginu hverju sinni, og núna er ríkjandi í íslensku samfélagi sá hugsunarháttur að ríkisafskipti séu vond, og að menn eigi að fá að vera í friði við að græða eins og þeir geta. Græðgi er góð, eru einkunnarorð íslensks samfélags um þessar mundir.“
Og síðar í sama pistli segir Kristján þegar hann talar um markaðshagræðingu hins opinbera:
„En það kemur ekki öllum til góða, hvað sem frægir hagfræðingar og verðbréfabláir markaðspostular predika. Þeir sem ekki hugsa eins og bankastjórar, og hafa ekki sama gildismat og markaðstrúarmennirnir, njóta ekki góðs af þessum ráðstöfunum.“
Nú er það svo að óvíða um byggð ból ríkir meiri jöfnuður manna á meðal en á Íslandi og aðeins öfgafyllstu velferðarríki skáka okkur þegar kemur að samhjálpinni. Miðað við orðfæri Kristjáns G. Arngrímssonar í tilvitnuðum pistli mætti ætla að hér á landi ríkti frumskógarlögmálið eitt og borgararnir væru afskiptalausir hver um hag annars. Þessi pistill Kristjáns er sem endurómur úr Þjóðviljanum sáluga, þar sem saurpennar kepptust við að sá fræjum öfundar og afbrýðisemi meðal fólks og ala á hvers kyns stéttahatri. Það er umhugsunarefni að slíkan pistil skuli vera að finna í einum af föstum dálkum Morgunblaðsins árið 2000.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021