Skyndilegt brotthvarf Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar úr forystusveit unga jafnaðarmanna hefur farið furðu hljótt. Vilhjálmur hefur verið afar áberandi í fjölmiðlum síðustu misseri sem brjóstvörn ungra jafnaðarmann og af mörgum álitinn krónprins „hins nýja, stóra og nútímalega“ Jafnaðarmannaflokks. Í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag staðfesti Katrín Júlíusdóttir að Vilhjálmur væri horfinn úr forystusveitinni og að hún sjálf væri tekin við leiðtogahlutverkinu. Þrátt fyrir þá breytingu sagði hún engin áform uppi um að varpa ágætu skjaldarmerki Ungra jafnaðarmanna fyrir róða, en það prýðir brjóstmynd af stofnanda hreyfingarinnar, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni [sjá meðfylgjandi mynd].
Brotthvarf Vilhjálms hlýtur að vekja spurningar um stöðu nýkjörins formanns flokksins, Össurar Skarphéðinssar, en sem kunnugt er var Vilhjálmur kylfuberi Össurar í aðdraganda formannskosninga á stofnfundi Samfylkingarinnar og fylgdi honum á fundi um gervallt landið. Samband þeirra þótti gefa fyrirheit um frama Vilhjálms innan Samfylkingarinnar og fátt benti til annars en að hann hefði fullan hug á frekari metorðum.
En pólitíkin er dyntótt tík og nú virðist krónprinsinn hafa misst tilkall sitt til krúnunnar. En það eru auðvitað fleiri krúnur og til metorða er auðvitað hægt að komast víðar en í Samfylkingunni. Heimildamaður DEIGLUNNAR segir ekki ólíklegt að leiðir Vilhjálms og framsóknarmaddömunnar muni liggja saman á næstunni og í ljósi manneklu ungra framsóknarmanna, er sú kenning meira en líkleg. Framsókn þarfnast Vilhjálms Hans og hann þarfnast hennar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021