Talið er að 75 milljónir manna hafi fylgst með kappræðum frambjóðendanna Als Gore og Georges Bush sem fram fóru í Boston í nótt sem leið. Líklega hafa flestir úr þessum stóra hópi horft á áhugaverðara sjónvarpsefni um ævina. Niðurstaða þessa fyrsta einvígis af þremur fyrirhuguðum var að mati stjórnmálaskýrenda og almennings jafntefli. Gore var betri, en ekki afgerandi betri, og Bush kom mörgum á óvart með frammistöðu sinni. Gore óx ásmegin eftir því sem á leið en Bush átti einstaka spretti. Þannig var umfjöllun eftir kappræðurnar að hætti íþróttafréttamanna – og kannski ekki við öðru að búast, þetta er jú keppni tveggja liða.
Að mati DEIGLUNNAR er í hvorugan frambjóðandann ýkja mikið spunnið. Al Gore hefur sérstakt lag á því að vera leiðinlegur á einstaklega yfirlætislegan hátt. Djúp hneykslunarandvörp varaforsetans á meðan á máli hins frambjóðandans stóð, voru í senn barnaleg og hrokafull. Gore er „besserwisser“ í verstu merkingu orðsins. Hann veit betur en mótframbjóðandinn í öllum málum, en það sem verra er: hann veit betur en hver einasti Bandaríkjamaður í öllum málum. Ekki er nóg með Gore viti betur en hver einasti Bandaríkjamaður heldur veit hann líka best af öllum hvað er hverjum og einum fyrir bestu – og hjá Al Gore fær hver og einn það sem honum er fyrir bestu, hvort sem viðkomandi líkar það betur eða verr.
George W. Bush er heldur ekki bitastæður frambjóðandi. Hann kemur á köflum fyrir eins og kjáni og hefur mjög takmarkaða útgeislun. En stóri munurinn – og gæfumunurinn hvað álit DEIGLUNNAR varðar – á frambjóðendunum er kannski sá að Bush virðist a.m.k. vera á þeirri skoðun að stjórnmálamenn eigi ekki að hlutast til líf einstaklingsins frá vöggu til grafar (nema kannski þegar kemur að grafarbakkanum!). Tillögur Bush í lífeyrismálum eru til marks um þetta, en þar leggur hann til að launþegar fái að ráðstafa lífeyri sínum til að fjárfesta í hlutabréfum. Niðurstaðan er í raun þessi: Báðir frambjóðendur eru slakir og þess vegna er sá þeirra, sem ætlar að hafa minni afskipti af kjósendum nái hann kjöri, betri kostur.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021