Aðgerðir velvildarmanna Palestínu við aðsetur ræðismanns Ísraels hér á landi komust í fréttir um helgina, enda ekki á hverjum degi sem mótmæli hérlendis hafa á sér jafn alþjóðlegan blæ og ætíð fylgir þjóðfánabrennum. Vart er hægt að hugsa sér sterkari yfirlýsingu andúðar á einstakri þjóð en að brenna fána hennar og því ekki ofsögum sagt að hatursmenn Ísraelsríkis hafi verið þarna að verki. En lausnin liggur ekki í því að ala á hatri og að gera ákveðna þjóð í heild sinni að andlagi reiðinnar.
Það er voðalegt þegar menn falla hvorir fyrir annars hendi í því sem sýnist tilgangslausar róstur. Enn átakanlegra er það þegar börn eru fórnarlömb brjálæðisins. Það hlýtur að vera svo, að hvert einasta mannslíf sé verðmætara en svarið við því hver byrjaði og hverjum þetta er allt saman að kenna. Brjálæðið og ringulreiðin er markmið stríðsæsingarmanna og af þeim er nóg fyrir botni Miðjarðarhafs. Slíkar manngerðir er reyndar víðar að finna, eins og til dæmis á Norður-Írlandi. Þar hefur það margsýnt sig að lausn er ekki markmið öfgamannanna, heldur þvert á móti áframhaldandi bardagi og meðfylgjandi blóðsúthellingar.
Ætla verður að fyrir velvildarmönnum Palestínu hér landi hafi ekki vakað að ala enn frekar á hatri fyrir botni Miðjarðarhafs, heldur að láta í ljós fyrirlitningu sína á þeim mannvígum sem þar hafa orðið síðustu dægrin. En því miður sýndi framkvæmd mótmælanna fram á vandamálið í hnotskurn. Öfgahópar og stríðsæsingarmenn nærast á slíkum tilhneigingum sem þar voru hafðar í frammi. Þær eru kjarni vandans, en ekki leið að lausn hans.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021