Á þessum degi fyrir 44 árum fjölmenntu stúdentar og verkamenn út á götur Búdapest í Ungverjalandi til að mótmæla ánauð þjóðarinnar undir kommúnisma Kremlarstjórnar. Næstu daga á eftir mögnuðust mótmælin og dreifðust um allt land. Þann 4. nóvember réðust sovéskar hersveitir inn í landið og börðu niður mótmælin af grimmd og offorsi – þúsundir Ungverja féllu í bardögum og fjölmargir voru teknir af lífi áður en „friður“ komst á að nýju. Í seinni tíð hefur Srebrenica verið talinn svartur blettur á alþjóðasamfélaginu. Ungverjaland 1956 var enn ömurlegri vitnisburður fyrir þau stjórnvöld sem töluðu fyrir frelsi og mannúð um heim allan.
Í marga daga eftir að 200.000 manna herlið Sovétmanna á 2.500 skriðdrekum ruddist inn í landið héldu Ungverjar í þá von, að Vesturlönd kæmu þeim til hjálpar – að frelsishróp þeirra næðu eyrum þeirra sem talað höfðu fagurlega í nafni frelsisins. En það gerðist ekki. Bretar og Frakkar voru uppteknir í smáskærum við Súez-skurð og studdu ekki tillögu Bandaríkjamanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að mótmæla innrás Rauða hersins. Almenningur á Vesturlöndum, þ.á m. á Íslandi, mótmælti framferði Sovétmanna harðlega en þau mótmæli komu ungversku andspyrnumönnunum að litlu gagni gegn ofurefli sovésku skriðdrekanna.
Eflaust má halda því fram – og það með ágætum rökum – að bein hernaðarleg íhlutun Vesturlanda á þessum tíma hefði leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar. En aðgerðarleysi stjórnvalda á Vesturlöndum var meira æpandi en svo. Þögn þeirra var allt að því viðurkenning á því að Sovétríkin gætu farið sínu fram í löndum Austur-Evrópu – þau væru á áhrifasvæði Kremlar. Innrásin í Ungverjaland – einkum hvernig stjórnvöld á Vesturlöndum litu undan – lagði línurnar fyrir það sem koma skyldi. Tólf árum síðar var vorið í Prag blásið af með byssuhvin, í upphafi 9. áratugarins var sovéska hernum beitt gegn Samstöðu í Gdansk í Póllandi – og að ógleymdum þeim sem féllu við sjálft járntjaldið á heimildarlausri leið sinni vestur.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021