Ekki þarf að fara mörgum orðum um áhrif fjölmiðla á þjóðmálaumræðu, hvort sem er á Íslandi eða í Bandaríkjunum. Fjölmiðlar eru oftar en ekki kallaðir fjórða vald þjóðfélagsins, til viðbótar lagasetningar-, dóms- og framkvæmdarvaldi. Þrískipting ríkisvaldsins byggir á því að innbyrðis eftirlit sé til staðar. Að sama skapi hafa fjölmiðlar sem fjórða valdið eftirlitshlutverki að gegna. Þessi skipan mála er af hinu góða, svo lengi sem fjölmiðlar tileinka sér fagleg vinnubrögð og hlutlægni.
En hlutverk fjölmiðla er ekki bara að hafa eftirlit með ríkisvaldinu og færa almenningi fréttir. Fjölmiðlar hafa feikileg skoðnamótandi áhrif og eru þannig í raun þátttakendur í mótun þjóðfélagsins. Nú á tímum eru það ljósvakamiðlarnir sem mest áhrif hafa en dagblöð eru einnig afar sterkur miðill á þessum vettvangi. DEIGLAN hefur áður fjallað um framgöngu helstu fjölmiðla í Bandaríkjunum í afstaðinni kosningabaráttu þar vestra. Engum þarf að dyljast að sú umfjöllun var lituð af afstöðu fjölmiðlanna til frambjóðenda. Því hefði mátt búast við að sá frambjóðandi, sem slíkrar velþóknunar nyti, færi auðveldlega með sigur af hólmi.
Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvernig umfjöllun fjölmiðla þar vestra hefði verið, ef ekki væri fyrir að fara fyrirbæri sem kallað er Netið. Sérstaða Netsins gagnvart hefðbundnum fjölmiðlum er sá greiði aðgangur sem almenningur hefur að því til að miðla og koma á framfæri upplýsingum og skoðunum. Þannig er fjölmiðlum veitt svo verulegt aðhald, að jafna má við eftirlitshlutverk þeirra sjálfra gagnvart ríkisvaldinu. Netið er því í raun fimmta valdið.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021