Í vikulegum og margverðlaunuðum sjónvarpsþætti Egils Helgasonar, Silfri Egils, í gær var rætt um framgöngu fjölmiðla í tengslum við vofveiflegan atburð sem þjóðin hefur ekki farið varhluta af síðustu vikur. Kom þar margt misathyglisvert fram en að mati DEIGLUNNAR er vandséð að íslenskir fjölmiðlar – að svo miklu leyti sem hægt er að tala um þá í heild – hafi farið yfir strikið í umfjöllun sinni um þetta mjög svo viðkvæma mál. Auðvitað brugðust einstakir fjölmiðlar ekki áhangendum sínum frekar en fyrri daginn, en gegnumsneitt var umfjöllun fjölmiðla að mestu til upplýsingar. Slík umfjöllun er besta vopnið til kveða niður kjaftagang og misskilning sem iðulega veður uppi þegar þess háttar atburðir verða.
En í ofangreindum umræðuþætti lét fjölmiðlafræðingurinn Guðrún Ögmundsdóttir fremur dapurleg ummæli falla. Hún gerði því í skóna að íslensk vefrit virtu að vettugi grundvallarreglur blaðamennsku og vísaði því til stuðnings í nafnlaus skrif í Pressunni. Beindi Guðrún þeim tilmælum til Þórs Jónssonar, varaformanns Blaðamannafélags Íslands, að „unga fólkið“ á vefritinum yrði tekið í kennslustund í siðareglum blaðamanna. DEIGLAN hefur oftsinnis gagnrýnt fréttaflutning Stöðvar 2 og satt best að segja er ótrúlegt að eitthvað megi læra um siðgæði af þeim sem þar á bæ ríða röftum. Þegar uppvíst varð um skelfilegt manndráp á eldri konu sl. vetur sá fréttamaður Stöðvar 2 sérstaka ástæðu til að lýsa aðferð banamannsins með slíkum hætti, að betur hefði sómt sér í annars ágætum þáttum hans um laxveiði á Íslandi.
Það er einnig athyglisvert að heyra viðhorf Guðrúnar Ögmundsdóttur til vefrita og hvaða kvíðboga hún ber í brjósti vegna þeirra. Vefritin eru auðvitað martröð fyrir forræðishyggjufólk eins og Guðrúnu. Þar grassera skoðanaskipti um alls kyns óæskileg mál, eins og lögleiðingu fíkniefna og vændis. Staðreyndin er nefnilega sú, að með tilkomu vefritanna hefur þjóðmálaumræðu hér á landi verið lyft á æðra plan. Eiga nú sjónarmið greiða leið að málsmetandi fólki sem litla samúð höfðu áður hjá meginstefnufjölmiðlunum. Það er líklega ekki ofsögum sagt að pólitísk umræða í þágu lýðræðis fari nú að mestu fram á Netinu, auk þess sem einstaka þáttastjórnendur hafa lagt ríkulega af mörkum.
En af því að sérstaklega var vikið að Pressunni varðandi það mál sem að ofan er getið, þá vill DEIGLAN hrósa ritstjóra Pressunnar fyrir afar góða umfjöllun um það mál. Umfjöllun Pressunnar var í senn upplýsandi og öfgalaus, og ljóst má vera að ritstjóri hennar býr að góðum heimildarmönnum á mörgum stöðum. Þá komu berlega í ljós kostir Netsins sem fjölmiðils, bæði hvað varðar skjóta birtingu á nýjustu upplýsingum og möguleika á leiðréttingu ef eitthvað var ónákvæmt. Að auki sýndi ritstjóri Pressunnar fram á, að ekki þarf risavaxið bákn til að flytja almennilegar fréttir; nettengd tölva, sími og snefill af góðri blaðamennsku er allt sem þarf.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021