Eins og búist var við tilkynnti Colin Powell í gær að hann hyggðist láta af embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann nýtur gríðarlegra vinsælda í heimalandi sínu og þá er hann einn fárra ráðherra forsetans sem nýtur virðingar í Evrópu. Á fyrra kjörtímabili Bush þurfti Powell oft á tíðum að kyngja erfiðum ákvörðunum ,,Haukanna” í ríkisstjórninni og eftir því sem á leið var minna tekið mark á skoðunum hans.
Sú sem valin var arftaki Powells, Condoleezza Rice, var þjóðaröryggisráðherra í ríkisstjórn Bush. Líklega má halda því fram að hún sé valdamesta blökkukonan í sögu Bandaríkjanna, nú þegar hún fer með utanríkismál. Hún er aðeins önnur konan til að gegna þessu embætti, sú fyrsta var Madeleine Albright í tíð Bill Clinton. En hver er Rice og við hverju má búast af henni í framhaldinu?
Condoleezza Rice fæddist í Alabama árið 1954 þegar enn ríkti mikill aðskilnaður hvítra og litaðra í fylkinu. Hún innritaðist í háskóla fimmtán ára gömul og þegar hún náði 26 ára aldri hafði hún þegar lokið doktorsprófi í alþjóðastjórnmálum frá Háskólanum í Denver. Þess má geta að einn leiðbeinenda hennar í doktorsverkefninu var Joseph Korbel, faðir Madeleine Albright.
Árið 1981 flutti Rice til Kaliforníu þar sem hún tók við prófessorstöðu við Stanford háskóla. Sérsvið hennar voru Sovétríkin og nýttist sú þekking vel þegar hún starfaði sem ráðgjafi í öryggismálum fyrir Bush eldri. Þegar Bush yngri bauð sig fram til forseta gekk Rice til liðs við hann og var eftir sigurinn skipuð Þjóðaröryggisráðgjafi. Hún hefur því dágóða reynslu af utanríkismálum og þess má geta að hún talar 4 tungumál, sem er mun meira en gengur og gerist í Bandaríkjunum.
Skiptar skoðanir eru um frammistöðu hennar á síðustu árum. Hún var nefnd sem hugsanlegt varaforsetaefni Bush enda hefur harðasti kjarni flokksins verið ánægður með störf hennar. Hún studdi innrásina í Írak og hefur varið aðgerðir Bandaríkjanna við hvert tækifæri. Þá hefur hún tekið virkan þátt í þeim aðgerðum sem gripið var til eftir 11. september. Í heildina má segja að hún sé mun meira í takt við opinbera afstöðu Bush-stjórnarinnar en Colin Powell var.
Ómögulegt er hins vegar að spá fyrir um hvaða áhrif þessi skipan muni hafa á samskipti Bandaríkjanna við önnur lönd. Vissulega hefur Rice nokkra þekkingu á Evrópu og búast má við að mikið kapp verði lagt á að bæta samskipti álfanna. Ákvarðanir um áframhaldandi aðgerðir í Írak verða eflaust teknar af forsetanum sjálfum og nánustu ráðgjöfum hans en hins vegar gæti stærsta verkefni nýs utanríkisráðherra orðið deila Ísraelsmanna og Palestínumanna. Þar gæti ákveðni hennar og stuðningurinn sem hún nýtur í Hvíta húsinu, hjálpað til við lausn deilunnar.
Ólíklegt er að samskipti Íslands og Bandaríkjanna breytist mikið á næstu 4 árum. Davíð Oddsson fundaði með Colin Powell í gær um framtíð herstöðvarinnar í Keflavík, en það hefur verið eina deiluefni ríkisstjórnanna undanfarna mánuði. Formlegar viðræður fara í gang í janúar og í fréttum Sjónvarpsins frá fundinum kom fram að íslenskir embættismenn væru almennt bjartsýnir á það að Rice myndi sinna málinu af alúð.
Condoleezza Rice er ekki öfundverð af hlutskipti sínu. Hún tekur við á viðsjárverðum tímum þegar ófriður í Miðausturlöndum magnast dag frá degi, ástandið víða í Afríku er hræðilegt og þá hefur orðstír Bandaríkjanna í heiminum versnað á undanförnum árum. Á fyrstu mánuðum hennar í embætti gætum við því hvort tveggja séð jákvæðar breytingar á utanríkisstefnu öflugasta ríkis heimsins, eða meira af því sama. Má þá heldur biðja um hið fyrrnefnda.
- Danmörk er uppseld - 5. ágúst 2005
- Þegar Evrópa sveik okkur - 21. maí 2005
- Gettu betur, syngdu best og dettu samt úr leik - 20. janúar 2005