Hér í Danmörku eru gefin út sérstök sjúkratryggingarskírteini. Þessi gulu myndalausu, plastspjöld með áletruðrum persónueinkennum eru sannkallaður lykill að samfélaginu. Gangi þeim vel sem heldur að hann geti leigt sér spólu án þeirra.
Til að koma smá jafnvægi á pistilinn skal fyrst birta smá lof um heiðarleika danskrar þjóðar. Undirritaður (tilgerðarleg leið til að segja „ég“) týndi veskinu sínu (mínu) á skemmtistað fyrir nokkru síðan. Eftir að hafa gefið upp vonina opnaði ég pósthólfið mitt 4 dögum síðar og, viti menn, óskilamunadeild lögreglunnar hafði sent mér veskið til baka. Með kortunum og öllu óhreifðu. Peningana þurfti ég reyndar að sækja til þeirra enda víst óheimilt að senda þá með pósti.
Þessi atburður opnaði þó augun mín og ég hef nú ákveðið að ganga ekki nema með það allra nauðsynlegasta í veskinu, í stað þess að dæla inn í það hverju því einasta plasti sem mér áskotnast. Meðal þess sem geng ekki lengur með er danska sjúkratryggingaskírteinið, enda dýrt að gera nýtt ef menn týna því. Svo mundi maður líka halda að þess skírteinis væri ekki þörf nema í samskiptum við lækna. En nei.
Ég fór að leigja vídjóspólu í gær. Auðvitað gekk til þess ekkert annað en að vera með bölvað sjúkratryggingarskírteinið. Stúdentaskírteinið mitt með ljósmynd, heimilisfangi og kennitölu mátti sig lítils gegn kröfunni um gula plaststykkið. Ég trítlaði heim á leið.
Hverju það breytir fyrir myndbandaleigu að vita að maður sé vel tryggður er ekki gott að vita. Hins vegar er þetta dæmi um óþolandi heimahugsunarhátt. Auðvitað truflar það innfædda ekkert að þurfa að sýna eitthvað kort sem allir eiga. Á sama hátt og það truflar ekki hina innfæddu og miðasjálfsalarnir í almenningsamgöngur taka bara við dönsku klinki eða dönskum debetkortum. En segjum að einhver sé staddur í landinu í einn mánuð sem farandverkamaður. Hann verður þá að vesenast í að þurfa skipta seðlum í klink og getur auðvitað gleymt því að hann fái að leigja sér spólu.
Þetta er auðvitað ekki sérstök gagnrýni á Dani enda ganga flestar þjóðir með nefið í naflanum þegar kemur að sambærilegum hlutum. Þegar ég fyrir nokkrum millilenti í Frankfurt, á einum stærsta tengiflugvelli heims. Ég sá röð af handfarangurskerrum sem allar kröfðust eins þýsks marks í pant svo þær keyrðu.
Íslenska kennitölugleðin hefur örugglege leitt af sér svipaðar sögur. En þetta truflar okkur auðvitað ekkert mikið. Við tökum lítið eftir slíkri skriffinnsku. Ekki fremur en aðrir, sem eru heima í heiminum.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021