Íslendingum þykir ofsalega gaman að gera grín að því hvað Bandaríkjamenn eru feitir. Þetta grín ber oft vott um það að okkur finnist við hafa meiri sjálfstjórn, borða betri mat og almennt séð bara vera betri en Bandaríkjamenn. En þeir sem gera grín á þessum nótum ættu aðeins að hugsa sinn gang. Þeir gera sér líklega ekki grein fyrir því að við Íslendingar erum sjálfir á meðal feitustu þjóða í heimi.
Þessi staðreynd kemur fram í rannsókn eftir hagfræðingana David Cutler, Edward Glaeser og Jesse Shapiro (allir á Harvard) sem birtist nýlega í tímaritingu Journal of Economic Perspectives. Greinin fjallar um orsakir þess að offita hefur aukist í Bandaríkjunum á síðustu áratugum. En í greininni er einnig borin saman offita í mismunandi löndum.
Cutler og félagar notast við hinn svokallaða “body-mass index” (BMI) þegar þeir bera saman offitu í mismunandi löndum. BMI á að vera mælikvarði á þyngd sem tekur tillit til hæðar. BMI er þyngd í kg deilt með hæð í metrum í öðru veldi. Kjörþyng er talin vera BMI milli 18.5 og 25. Þeir sem mælast með lægri BMI eru of léttir. Þeir sem mælast milli 25 og 30 eru of þungir og þeir sem mælast yfir 30 eru sagðir þjást af offitu. Rannsóknir Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) benda til þess að þeir sem eru með BMI yfir 25 hafi að öðru jöfnu hærri dánartíðni og séu líklegri til þess að þjást af ýmsum sjúkdómum.
Gögn Cutler of félaga sýna að Bandaríkin eru nokkru feitari en aðrar þjóðir innan OECD. Um það bil 27% Bandaríkjamanna þjást af offitu. Næst koma fjögur ríki þar sem 19-20% þjóðarinnar þjáist af offitu. Þetta eru Bretland, Þýskaland, Ástralía og Ísland. Um 17% Nýsjálendinga þjást af offitu. Í öðrum löndum hrjáir offita færri en 15% þjóðarinnar. Japan sker sig út á meðan OECD ríka. Einungis um 3% Japana þjáist af offitu.
Ísland kemur langverst út á meðal Norðurlandaþjóðanna. Í hinum Norðurlöndunum er staðan þessi: Finnland: 11%, Svíþjóð og Danmörk: 8%, Noregur: 6%.
Offita er að verða eitt mesta lýðheilsuvandamálið á meðal þróaðra ríkja. Í stað þess að gera grín að Bandaríkjamönnum ættum við að horfa í eigin barm og taka til við að reyna að átta okkur á því hvernig best er bregðast við þessari þróun.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009