Feita Fólkið

Bandarískt afþreyingarsjónvarp tók enn eitt skrefið niðurávið í haust þegar þeir hófu sýningar á raunveruleikaþættinum “The biggest loser” þar sem tólf manneskjur keppast um að tapa eins mörgum kílóum og auðið er til að græða $250.000.

offita

Það er ekkert fyndið við þessa mynd enda er feitt fólk ekki fyndið frekar en aðrir minnihlutahópar eins og konur, svertingjar og rauðhært fólk

Bandarískt afþreyingarsjónvarp tók enn eitt skrefið niðurávið í haust þegar þeir hófu sýningar á raunveruleikaþættinum “The biggest loser” þar sem tólf manneskjur keppast um að tapa eins mörgum kílóum og auðið er til að græða $250.000.

Staðalþemum raunveruleikasjónvarps er beitt óspart í þættinum. Skipt í tvö lið: rauða liðið og bláa liðið; liðin eru vigtuð í lok hvers þáttar og tapliðið þarf að kjósa einn úr liðinu úr leik og freistingar í formi óholls matar eru á hverju strái.

Til þess að minna áhorfendur á að hérna er um óeðlilegt fólk að ræða þá þurfa keppendur að vigta sig í iðnaðarvigt sem myndi duga hvaða meðalsláturhúsi sem er. Karlmennirnir eru síðan berir að ofan við vigtunina. Í einni keppninni (þar sem verðlaun voru 5 pund af svínafitu) þurftu keppndur að stinga sér inn í kappakstursbíl, í gegnum bílstjóragluggann (þröngt op – stórir skrokkar) og í öðrum þætti skemmtu þau áhorfendum í sal með söngatriði sem fjallaði um það hversu feit þau voru.

Þátturinn vekur upp ákveðnar siðferðislegar spurningar: er í góðu lagi að græða á því að niðurlægja fólk? Er offeitt fólk með minni sjálfsstjórn en aðrir og þar af leiðandi er kjörið að gera grín að þeim? Á hinn bóginn eru spuningar eins og: Er í alvöru verið að niðurlægja þetta fólk? Keppendur eru með af fúsum og frjálsum vilja, þeir grennast og einn þeirra græðir stórfé.

Á móti má síðan spyrja: er eitthvað að því að gera grín að feitu fólki? Í þjóðfélagsumræðunni undanfarið hefur þeim stöðugt fækkað sem má gera grín að. Það er algjört stílbrot í bandarísku sjónvarpi að geta flokkað einhvern brandara til minnihlutahóps. Stöðugur púrítanismi í nafni pólitískar réttlætiskenndar gengur berserksgang við að gera lífið leiðinlegra.

Í dag eru það einungis miðaldra hvítir karlmenn sem er ekki búið að flokka sem minnihlutahóp enda eru þeir aðalfórnarlömb grínþátta hér vestra. Þessar hversdagshetjur eru margar hverjar í þyngri kantinum sem gefur til kynna að ennþá sé skotleyfi á fólk í yfirvigt. Ef púrítanar Íslands og annarra landa fá að halda áfram að gera lífið leiðinlegra þá munu þessir heimilisvinir bráðum snögggrennast til að halda þrýstihópum ánægðum.

* hér er stuðst við skilgreiningu Center for Disease Control frá Atlanta í Bandaríkjunum þar sem fólk með BMI mælingu yfir 25 telst ofþungt og fólk með yfir 30 í MBI mælingu telst þjást af offitu.

(sjá http://www.cdc.gov/nccdphp/dnpa/bmi/calc-bmi.htm)

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.