Þegar Michael Howard tók við forystunni ætlaðist enginn til þess að honum tækist að leiða flokkinn til sigurs í næstu þingkosningum. Að ætla yfirbuga 160 sæta meirihluta Verkamannaflokksins á einu bretti hlaut að teljast óraunsætt markmið. Kröfurnar voru miklu fremur að hann myndi sameina flokkinn á ný og móta skýra og árangursríka stefnu, sem stór hluti almennings sæi sem raunverulegan valkost við stefnu Verkamannaflokksins.
Tólf mánuðum seinna og um sex mánuðum frá sennilegum kosningadegi, er niðurstaðan hins vegar sú að Howard hefur ekki náð að standa undir þeim hófsömu væntingum sem gerðar voru til hans. Þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins hafi staðið í mörgum erfiðum málum að undanförnu, hefur Howard – sem leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins – mistekist að heilla kjósendur með málflutningi sínum. Um 60% kjósenda segja að Íhaldsmenn skilji ekki þarfir þeirra.
Í nýjasta tölublaði The Economist fjallar Bagehot um vandræði Howards og vísar til tveggja nýlegra skoðanakannana sem birst hafa í Daily Telegraph og Guardian, sem sýna fylgi Íhaldsflokksins í 32% og 31% – hér um bil það sama og þeir fengu í kosningunum árið 1997 og 2001. Í október fyrir ári síðan, þegar flokkurinn var enn undir forystu Ian Duncan Smiths, mældist hann hins vegar með 34% og 33% fylgi. Stuðningur við Verkamannaflokkinn hefur lítið breyst.
Hvað hefur eiginlega farið úrskeiðis hjá Howard? Það er aðallega tvennt sem mætti nefna til sögunnar. Í fyrsta lagi, þá eru kosningar unnar á miðjunni – ekki á jaðrinum. Fáir skilja þetta betur en einmitt Tony Blair. Könnun sem gerð var fyrir Daily Telegraph fyrir um mánuði síðan sýndi að kjósendur líta á Blair sem hinn fullkomna miðjumann. Fólk var beðið um að staðsetja sjálft sig á vinstri-hægri ás, og gera það sama fyrir nokkra vel þekkta stjórnmálamenn. Niðurstaðan var sú að Tony Blair er staðsettur á nákvæmlega sama stað og meginþorri kjósenda, á meðan flokkurinn hans er nokkuð lengra til vinstri heldur en kjósendur.
Allt annað á við um Michael Howard og Íhaldsflokkinn. Kjósendur skynja bæði Howard og flokkinn sem yst á jaðrinum í breskum stjórnmálum. Hinn dæmigerði kjósandi er staðsettur rétt vinstra megin við miðju. Og þar sem Íhaldsflokkurinn þarf nauðsynlega á auknu fylgi að halda frá einmitt þessum hópi kjósenda, þá boðar þetta alls ekki gott fyrir möguleika hans í kosningum.
Annað atriðið snýr að trúverðugleika. Þetta er vandamál sem má rekja allt aftur til ríkisstjórnar John Majors. Íhaldsflokkurinn vann kosningarnar naumlega árið 1992, einkum vegna tveggja loforða sem þeir gáfu; að þeir myndu snúa við samdrætti í efnahagslífinu og skattar yrðu lækkaðir. – Hvorugt var staðið við. Síðan þá hafa allir leiðtogar Íhaldsflokksins þurft að berjast við að reyna koma sér upp trúverðugleika. Fólk hefur nefnilega litið svo á, að þegar þeir taka upp málflutning sem er líklegur til vinsælda, þá sé það aðeins vegna þess að kosningar séu í nánd.
Maður hefði því haldið að Howard myndi taka mið af þessu og forðast að haga málflutningi sínum á þann hátt að hann bæri keim af eintómri hentistefnu. En ekki aldeilis. Í minnsta kosti fjögur skipti – upptöku skólagjalda í háskólum, Hutton skýrslan, innrásin í Írak og nú síðast varðandi frumvarp um frjálslyndari löggjöf vegna spilavíta – hefur málflutningur Howards frekar komið fyrir sjónir sem örvæntingarfull tækifærismennska, heldur en áhugi á því að gera það sem er rétt og í samræmi við hugmyndafræði flokksins. Kjósendur eru ekki – flestir allavega – vitleysingar og þeir sjá að lokum í gegnum svona málflutning. Eftir stendur Howard fremur sem hræsnari, heldur en trúverðugur leiðtogi.
Á endanum er kannski eina von Íhaldsflokksins að bíða bara þolinmóður eftir að Tony Blair láti af embætti sem formaður Verkamannaflokksins. Og fátt bendir til að það verði eitthvað á næstunni.
- Hvenær mun kínverska hagkerfið fara fram úr hinu bandaríska? - 21. ágúst 2008
- Af hverju kapítalismi leiðir ekki endilega til lýðræðis - 15. ágúst 2008
- Annað tækifæri - 12. janúar 2008