Fljótt á litið virðist sem næsta skref í áætlun Hillary um að verða forseti Bandaríkjanna eftir 4 ár hafi gengið eftir. Tap John Kerry þýðir að eftir fjögur ár verða tvö ný nöfn á kjörseðlunum. Líklegast tekst Hillary að ná endurkjöri til Öldungardeildar eftir tvö ár og getur þá notað feril sinn þar sem stökkpall inn í Hvíta húsið.
En á hún einhvern möguleika? Og hver er ástæðan fyrir því að hún er svo oft nefnd í sambandi við forsetaembættið?
Í fyrsta lagi er eflaust um að ræða söknuð til forsetatíðar Clintons. Við frjálslyndir Norðurlandabúar eigum erfitt með að ná utan um siðferðislegan þankagang Bush. En erfiðara finnst okkur að skilja að sá þankagangur teljist honum til tekna vestanhafs.
Hinn afslappaði Clinton var mönnum mun meira skapi en hinn guðhræddi Bush. Hann varpaði samt sprengjum á Afganistan og Írak. Nöfn sem hljóma kunnuglega? En þetta voru samt bara svona „lítil“ stríð. Og Clinton er svo næs gæi. Auðvelt að fyrirgefa honum.
Önnur og ekki síðri ástæða þess hve oft nafn Hillary ber á góma er algjör skortur á öðrum nöfnum á Demokratamegin. Bandarískt samfélag hefur færst mjög til hægri að undanförnu og flokkurinn hefur því átt erfitt uppdráttar. Eina sem gæti gengið fyrir Demokrata væri einhver rokkstjarna eins og Bill Clinton var. Seinasta prófkjörsbarátta sýndi engan slíkan.
Heldur einhver að Al Gore fái að reyna aftur? Maðurinn sem tók með sér í kosningabaráttuna mesta hagvaxtaskeið sögunnar og vinsælann forseta, gat ekki einu sinni unnið sitt heimafylki.
Hillary Clinton er metnaðarfull kona sem kemur vel fyrir. Hún væri því eflaust ekki án möguleika ef hún sóttist eftir embættinu. En hins vegar ætti menn þó ekki að gera sér of miklar vonir. Reynslan sýnir að ríkisstjórum vegnar betur en þingmönnum. Þeir geta komið fram sem menn fólksins í landinu gegn hirðinni í Washington. Hillary ætti eflaust eitthvað þokkaforskot á Dick Cheney en gæti hún stolið senunni gegn karismafyllri frambjóðanda eins og Condoleezu Rice, eða sjálfum Arnold?
Hver veit hvað Hillary er að hugsa. Kannski hefur hún metnað, kannski líður henni bara vel þar sem hún er í dag. Ef til vill mun næsti frambjóðandi vera einhver vinsæll ríkisstjóri sem enginn kannast við í dag. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort sá frambjóðandi, hver sem það verður, muni eiga einhvern séns.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021