Golíat

Af fjölmörgum risum á sviðið smásölu í heiminum, er eitt fyrirtæki sem ber höfuð og herðar yfir öll önnur – Wal-Mart.

Wal-MartWal-Mart (WMT) er stærsta verslunarkeðja í heimi. Þar fæst nánast allt milli himins og jarðar, allt frá bíldekkjum og fótanuddtækjum yfir í tannbursta og risasjónvörp. Ekki nóg með það, heldur býður Wal-Mart alltaf vörurnar sínar á lægra verði en allir aðrir.

Árið 1962 opnaði fyrsta Wal-Mart verslunin í bænum Rogers í Arkansas fylki í Bandaríkjunum. Stofnandinn, Sam Walton, hafði þá um rúmlega tíu ára skeið reynt fyrir sér í verslunarrekstri af ýmsu tagi, en ákvað að þessu sinni að gera þetta almennilega.

Sam var afar atorkusamur maður og gaf sig allan í reksturinn. Fólk tók fyrstu versluninni afar vel, enda var lágt vöruverð haft að leiðarljósi frá upphafi. Sam átti konu og fjögur börn, sem öll tóku virkan þátt í rekstrinum frá upphafi og stjórna þau fyrirtækinu enn þann dag í dag.

Ekki leið á löngu þar til Wal-Mart stækkaði og verslunum fjölgaði hratt. Sam átti litla flugvél sem hann notaði til þess að fljúga yfir nærliggjandi borgir í leit að góðum stöðum til þess að setja niður næstu verslun. Hvar sem Wal-Mart opnaði verslun var þeim vel tekið og reksturinn gekk mjög vel.

Árið 1972 var fyrirtækið skráð á New York Stock Exchange og hefur alla tíð þjónað hluthöfum sínum afar vel, enda góður hagnaður af rekstri félagsins á hverju ári og stöðugur vöxtur síðastliðinn 40 ár. Þetta hefur gert Wal-Mart að einu stærsta fyrirtæki heims.

Til þess að gera sér grein fyrir stærð Wal-Mart í dag þarf nokkuð gott ímyndunarafl. Félagið rekur tæplega 5.200 verslanir í 10 löndum, flestar í Bandaríkjunum og á þessu ári og því næsta áætlar félagið að opna um 1000 nýjar verslanir. Starfsmenn félagsins eru nú um ein og hálf milljón manna og meðallaun þeirra eru $9.70 á klukkustund. Á síðasta ári seldi félagið vörur fyrir 256 milljarða Bandaríkjadala, sem samsvarar um 18 þúsund milljörðum króna og hagnaður þess var níu milljarðar dala eða um 630 milljarðar króna. Til samanburðar var verg landsframleiðsla á Íslandi á síðasta ári um 810 milljarðar.

Þótt ótrúlegt megi virðast er Wal-Mart samt ekki stærsta fyrirtæki í heimi, en sleppur inn í síðasta sæti á listanum yfir tíu stærstu. Meðal tíu ríkustu manna heims eru hins vegar ekkja Sam Waltons og börnin hans fjögur. Þau hafa verið þar í nokkur ár og verði líklega nokkuð áfram. Sam komst sjálfur á listann um miðbik 9. áratugarins og sat þar sem fastast þar til hann lést árið 1992.

Wal-Mart hefur yfir að ráða einu fullkomnasta birgða- og dreifikerfi sem þekkist í heiminum og þeir hafa ávallt verið í fararbroddi varðandi nýtingu tækninýjunga á því sviði. Þeir reka sömuleiðis stærsta vörubílaflota heims og öll samskipti milli birgðastöðva, verslana og vörubíla fara fram um gervihnetti í eigu Wal-Mart – að sjálfsögðu stærsta gervihnattakerfi í einkaeigu í heiminum.

Drefikerfið hefur átt stóran þátt í velgengni Wal-Mart vegna þess að það gerir þeim kleift að halda kostnaði við reksturinn mjög lágum, til dæmis mun lægri en hjá helstu keppinautum, en þarna koma líka önnur atriði til sögunnar.

Wal-Mart hefur alla tíð komið vel fram við starfsfólk og mjög góður starfsandi er í fyrirtækinu. Fastir starfsmann fá að jafnaði hlutabréf í félaginu, meira eftir því sem þeir vinna lengur og þannig aukast tekjur þeirra umtalsvert. Margir hafa orðið milljónamæringar af því einu að stjórna Wal-Mart verslun.

Undanfarin ár hefur Wal-Mart þó átt undir högg að sækja. Þeim stafar engin hætta frá samkeppnisaðilum, en hins vegar vilja margir meina að þeir hafi óhreint mjöl í pokahorninu varðandi ýmis starfsmannamál, samkeppni og sitthvað fleira. Þeir hafa til dæmis verið gagnrýndir harkalega fyrir að gefa konum og körlum ekki jöfn tækifæri til stöðuhækkana og þá hefur heldur hallað á konurnar. Einnig hefur lengi verið sagt um Wal-Mart að þegar þeir opna verslun, helst í litlum bæjum, þá fara allir aðrir á hausinn vegna þess að enginn getur boðið sambærileg verð.

Stjórnendur Wal-Mart, þar á meðal stjórnaformaðurinn Rob Walton, elsti sonur Sam, vilja ekki kannast við fyrrnefnda atriðið og benda á ýmsar tölulegar staðreyndir því til stuðnings. Þeir viðurkenna hins vegar að hið síðarnefnda geti átt við rök að styðjast, en verja sig þó með því að þar sem þeir bjóði töluvert lægra verð, þá farnist öllum betur.

Hvað sem öðru líður, þá hefur Wal-Mart um áratugaskeið bætt hag Bandaríkjamanna og nú færir félagið sig í auknum mæli til Evrópu og Asíu með sama markmið að leiðarljósi. Sem dæmi um þetta má nefna ferð pistlahöfundar í Wal-Mart fyrir skömmu, þar sem ákveðið var að fjárfesta í herðatrjám. Þrettán slík í pakka voru til sölu á aðeins 88 cent eða um 60 krónur. Ekki veit ég hver framleiðir þau á svona lágu verði, en ég vildi hins vegar glaður kaupa þau.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)