Áttu hjarta?
Nei, veiddu! No problemo… |
Sennilega er fátt meira pirrandi en að fæðast með gallað hjarta. Hugsanlega mætti deila um þessa fullyrðingu í ljósi þess að skv. sagnfræðilegum heimildum hafa menn fæðst bæði án handa og fóta—en við skulum láta það liggja á milli hluta í þessu síðbúna helgarnesti sem fjallar að megingrunni um atriði tengd líffærum og landssöfnunum. Hugmyndin á bak við landssöfnunina er góð og gild og þannig vonar pistlahöfundur að menn láti til sín taka og veiti þessu göfuga málefni þann styrk sem það á sannarlega skilið. Hins vegar er ekki hægt að minnast á gervihjörtu án þess að ræða stuttlega um líffæragjafa. Hér hættir pistlahöfundur sér út á ansi niðurdrepandi og leiðinlega braut sem ekki hefir áður verið fetuð í helgarnesti, en þess verður gætt í hvívetna að hafa pistilinn ekki leiðinlegan úr hófi fram.
Árlega deyr tugur manna á Íslandi sem bíða líffæraígræðslu vegna skorts á líffæragjöfum. Í huga pistlahöfundar eru þetta algerlega óþörf dauðsföll sem hæglega mætti koma í veg fyrir.
Þannig vill nefnilega til að hægt er að skrá sig sem líffæragjafa á sjúkrahúsum borgarinnar. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á það að ef menn falla óvænt frá fyrir aldur fram gefa þeir leyfi til ígræðslu á líffærum sínum í einstaklinga sem sárlega þarfnast þeirra til að geta lifað nokkuð eðlilegu lífi.
Til að drepa niður alla stemmningu yfir enska boltanum hefir pistlahöfundur oft rætt þetta við kunningja sína. Skoðanir þeirra eru jafnmargar og þeir eru misjafnir, en hins vegar eiga þeir það flestir sammerkt að hafa aldrei pælt í þessu. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni.
Hver og einn líffæragjafi getur hjálpað allt að 50 einstaklingum og ég get eiginlega ekki hent reiður á neina betri leið til að láta gott af sér leiða að sér gengnum.
Það skiptir ekki máli þótt margir kæri sig ekki um að láta fjarlægja úr sér líffæri að sér látnum. Þannig nægir að 0,1% Íslendinga skrifi undir viljayfirlýsingu um líffæragjöf til að útrýma megi ótímabærum dauðsföllum vegna þessa. Trúarskoðanir og hræðsla við hið óþekkta eru allt lögmætar afsakanir, en þá sem langar til að hjálpa einhverjum sem eiga um sárt að binda eru eindregið hvattir til að skrá sig sem hugsanlega líffæragjafa.
Hið minnsta kynna sér málið og segja fleirum frá hugmyndinni.
Góða helgi.
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007