Það er ótrúlegt hve fljótir menn verða að gleyma hve íþyngjandi ýmsar aldurstengdar reglugerðir verða um leið og aldrinum er náð. Hvaða fertugur maður æsir sig ekki út af hvaða bannmerkingar eru settar á bíómyndir. Eins eru flestir sem ná áfengiskaupaaldri frelsinu fegnir og vilja ekki skemma móralinn á foreldrafundinum með því að vera á öndverðum meiði.
Vissulega er það oft þannig að börn og unglingar vita ekki hvað sé því sjálfu fyrir bestu. En stundum þegar menn segja hluti á borð við „þú hefur gott af því að læra dönsku“ er ekki ljóst hvort menn eigi virkilega við „þú hefur gott af því að læra dönsku“ eða „Ég hata dönsku þú, þarft að líða sömu kvalir og ég gerði“.
Menn eiga auðvelt með að stjórna lífi hinna réttlausu. „Ég kalla dansleikinn í kvöld af.“ „Þessi grein fer ekki í blaðið.“ „Ekkert kók í frímínútunum.“ Þar sem unga fólkið þekkir ekki rétt sinn gefur það oftast eftir, jafnvel þegar það er órétti beitt.Og auðvitað eru það löghlýðnustu lúðarnir, sem þurfa að líða fyrir allt.
Til að geta neytt dópista á aldrinum 16-18 ára í meðferð var ákveðið að hækka sjálfræðisaldurinn. Á þeim tíma var það gert í nafni þess að samræma ýmis réttindi. Einu réttindin sem hefði þurft að færa niður til 18 ára aldur voru réttindi til að kaupa áfengi. Átta árum síðar eru þau lög en óbreytt. Enda alltaf auðveldast að samræma réttindi með að taka þau fremur en með því að veita þau.
92. gr. Útivistartími barna
Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.
Ég skal ekki taka afstöðu til þess hvort útivistarreglur eigi rétt á sér eða ekki. Hið minnsta á að vanda beri til slíkra laga eins eins og annarra. Hvaða lög er það sem gefa aðeins upphafstíma á útvistarbanni en ekki hvenær því lýkur? Mega krakkar vakna klukkan 4:20 og fara í körfubolta? En klukkan 5 eða 6?
Börn og unglingar hafa líka mannréttindi. Ekki aðeins umhyggjumannréttindi eins og rétt til menntunar og ofbeldislauss umhverfis. Ungt fólk á líka rétt á hefðbundnum mannréttindum: tjáningarfrelsi og félagafrelsi. Stöðu sinnar vegna eru börn og unglingar oftast háð fullorðnum og þessi réttindi. Það er því afar mikilvægt að menn sem hafi til þess afstöðu virði viðkvæm mannréttindi unglinga og meini þeim ekki þau nema þegar mestu nauðsyn ber að.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021