Í aðdragaganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum hafa fjölmiðlarnir verið gjörsamlega að drukkna í skoðanakönnunum. Frá 1. september hafa fyrirtæki og stofnanir gert um 1000 skoðakannanir. Eru þá aðeins kannanir frá „virtum“ aðilum taldar. Það er því skondið að þrátt fyrir allan þennan fjölda kannana, munum við setjast að skjánum í kvöld án þess að geta fullyrt nokkuð um hver fari með sigur af hólmi.
Á heimasíðu sem býður fólki að spá fyrir um ákveðna fréttaatburði seldust bréfin í sigri Bush á 51 dollara í gærkvöldi og höfðu hrunið úr um 70 dollurum fyrir aðeins viku síðan. Þetta þýðir að markaðurinn telji líkur á sigri Bush vera 51%. (Fyrir hvern hlut fást greiddir 100 dollarar ef Bush vinnur.) Spennan er því í algleymingi.
En aftur að skoðanakönnunum. Ætla mætti að ef slíkur hliðstæður fjöldi skoðakannana mundi dynja á Íslendingum færu alvörufullir þáttastjórnendur að spyrja gesti sína hvort ekki ætti að setja einhver lög um þetta eins og gert hefði verið í öðrum löndum. Svona svo að fólkið fengi frið til að gera upp sinn hug.
Af svipuðum toga eru hugmyndir um að leyfa ekki auglýsingar á kjördag, eða jafnvel nokkru áður. Slíkt er auðvitað algjörlega óþörf hindrun og tjáir, að mínu mati, fullhátíðlega sýn fólks á lýðræðið. Staðreyndin er að partý og pylsur ýta upp kjörsókn og ef einhver vill fá frið til að ákveða sig þá getur hann alveg slökkt á sjónvarpinu og farið í heitt bað, án þess að þurfi að setja lög honum til aðstoðar.
Það skal viðurkennast að fátt er skelfilegra en þegar heilu kosningabarátturnar fara að snúast um skoðanakannanir eingöngu. Annað hvort um það hvort þær séu of margar (sjá einnig: „Fer jólaverslunin óvenjusnemma af stað í ár?“) eða hvað viðkomandi stjórnmálaleiðtogi lesi í útkomu framboðs síns.
Síðarnefndar spurningar eru dæmi verstu tegund uppfyllingarfréttaefnis. Auðvitað mun sá sem hækkar finna mikinn meðbyr, sá sem stendur vera sáttur við stöðugt fylgi og sá sem tapar draga sannleiksgildi þeirra í efa eða svekkja sig yfir tilveru annara stjórnmálaflokka. („Hart var að okkur sótt!“)
Eins og að spyrja: „Ertu bjartsýnn fyrir hönd íslenskrar knattspyrnu, Eggert?“ eða „Heldur þú, Kári, að fyrirtæki þitt muni halda áfram að falla í verði og verða á endanum gjaldþrota?“
Nei, vandinn liggur ekki í gerð og birtingu skoðanakannana. Ef umræðan verður þunn og snýst um skoðanakannanirnar sjálfar einungis þá er um að kenna metnaðarleysi fjölmiðla eða einfaldlega því að ekkert er til að kjósa um eins og t.d. í íslensku forsetakosningunum 1996.
Að lokum má nefna að skoðanakannanir eru mikilvægt tæki til að koma upp um kosningasvindl. Á sunnudaginn fór fram fyrsta umferð úkraínsku forsetakosninganna. Þrátt fyrir að tvær óháðar útgönguspár hafi sýnt að frambjóðanda stjórnarandstöðunnar með meira fylgi eru opinberu tölurnar á þá leið að frambjóðandi stjórnvalda hafi sigrað með um 5% mun. Því miður er erfitt að segja hvernig fylgið hafi þróast seinustu tvær vikurnar en þá tók gildi bann við birtingu skoðanakannana.
Þeir sem fylgst hafa með þeim tveim vikum vita að friður og næði kjósenda til ákvarðanatöku eru ekki orðin sem lýsa þeim best.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021