Lokasprettur kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, sem fara fram á morgun, stendur nú sem hæst. Báðir frambjóðendur fljúga úr einu fylki í annað stanslaust og hafa gert um nokkurt skeið. Skoðanakannanir gefa til kynna að frambjóðendurnir séu nú hnífjafnir. Munurinn milli frambjóðendanna er innan skekkjumarka í u.þ.b. 10 fylkjum sem samanlagt ráða yfir 100 kjörmönnum. Kosningaspekingar eru sammála um að flestir kjósendur hafi nú þegar gert upp hug sinn og að sú fylking muni sigra sem stendur sig betur í því að koma sínu fólki á kjörstað.
Hópur ristjórnarmeðlima á Deiglunni, sem er staddur í Bandaríkjunum um þessar mundir til þess að fylgjast með kosningunum, lagði í gær leið sína til Manchester í New Hanpshire fylki þar sem John Kerry hélt framboðsfund. New Hampshire hefur í gegnum tíðina verið sterkasta vigi Repúblikanaflokksins á New England svæðinu. Frjálshyggja hefur einkennt stjórnmál í New Hampshire undanfarna áratugi meira en í flestum öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Til marks um það er að í New Hampshire er enginn fylkistekjuskattur og á bílnúmerum frá New Hampshire er prentað mottó fylkinsins: “Live Free of Die”. New Hampshire-búar hafa hins vegar hægt og bítandi verið að smitast af stjórnmálaskoðunum annarra New England búa. Og nú er svo komið að fylkið gæti fallið Demókrötum í skaut. Það er þess vegna sem John Kerry leggur leið sína til fylkisins svona stuttu fyrir kosningar.
Kosningafundurinn var vel sóttur. Deiglupennar voru hins vegar sammála um að skipulagning fundarins hafi verið nokkuð ábótavant. Allir gestir fundarins þurftu að fara í gegnum málmleitartæki og tók nokkra klukkutíma að koma öllum (næstum öllum) inn á svæðið. Flestir sem sóttu fundinn voru augljóstlega diggir stuðningsmenn Kerry og mun meira vinstrisinnaðir en hinn dæmigerði kjósandi í Bandaríkjunum.
Nokkrir athyglisverðir ræðumenn töluðu á undan Kerry. Fyrstu var George Mitchell, öldungardeildarþingmaður frá Maine, sem hefur helst getið sér frægðar fyrir að semja um frið á Norður-Írlandi. Næstur kom Tony McPeak, fyrrverandi yfirmaður bandaríska flughersins 1990-1994. Hann sagðist hafa stutt Bush fyrir fjórum árum en orðið afhuga forsetanum vegna stefnu hans í utanríkismálum sem McPeak telur að hafi veikt stöðu Bandaríkjanna í heiminum. Þá töluðu þrír stjórnendur Boston Red Sox. Red Sox unnu World Series í síðustu viku í fyrsta skipti í 86 ár. John Kerry, sem haldið hefur með liðinu alla sína ævi, hefur síðan reynt að nýta sér sigurinn til þess að ná til stuðningsmanna félagsins um öll Bandaríkin.
Kerry talaði síðastur. Efnislega hafði hann ekki mikið nýtt fram að færa. Stórir hlutar ræðunnar voru kunnuglegir frá landsþingi flokksins í sumar og kappræðunum í haust. Það skein hins vegar í gegnum ræðuna að Kerry lítur á Ohio sem algert lykilfylki. Öll tækifæri voru notuð til þess að minnast á Ohio. Þar að auki lagði Kerry mikla áherslu á mikilvægi þess að allir leggðust á eitt um að koma sem flestum á kjörstað á þriðjudaginn. Það var kannski einn helsti tilgangur fundarins, þ.e. að stappa stálinu í harðasta kjarnann til þess að hann tæki á honum stóra sínum á þriðjudaginn.
- Er hagfræði vísindi? - 29. apríl 2021
- Heimurinn sem börnin okkar munu erfa - 24. nóvember 2020
- Ísland þarf ný hlutafélagalög - 10. nóvember 2009