Kaup Símans á Skjá 1 fyrir skemmstu eru skiljanleg út frá viðskiptalegum sjónarmiðum. En út frá sjónarmiðum þeirra sem vilja minnka umsvif ríkisins í atvinnulífinu er ákvörðunin tormelt.
Samruni fjölmiðlafyrirtækis og fjarskiptafyrirtækis virðist í fyrstu sýn vera nokkuð góður kostur. Ekki síst þegar flest bendir til þess að í nánustu framtíð verði sjónvarps- og útvarpsefni miðlað um háhraða-interntengingar – tækni sem er að verða regla frekar en undantekning á íslenskum heimilum. Því er eðlilegt að fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki horfi til framtíðar og aðlagi að þessari þróun. Einnig er ljóst að mikil samkeppni ríkir á fjarskiptamarkaðnum þar sem Síminn og OgVodafone berjast um hylli viðskiptamanna.
Því gera fyrirtækin hvað þau geta til að tryggja framtíðarstöðu sína eins og fyrirtækja er von og vísa á almennum markaði.
En Síminn er ekki á almennum markaði. Hann er í meirihlutaeigu ríkisins og þó það að hafi verið á stefnuskránni í nokkurn tíma að selja hann, verður ekki litið fram hjá því að aukin umsvif fyrirtækisins eru aukin umsvif ríkisins. Þó að menn vilji meina að honum sé stjórnað eins og hverju öðru fyrirtæki í einkageiranum eru óskráðar reglur einkageirans að stefnu eigandanna er fylgt. Ríkið er eigandinn og ríkið ræður ferðinni. Ef svo væri ekki væri varla verið að hugsa um það almannafé sem í Símanum liggur og væru það óvandaðir stjórnunarhættir svo ekki sé meira sagt.
Venjan er að fyrirtæki á almennum markaði geri hvað þau geta til að tryggja eigendum góða og trygga afkomu. Þetta felur oftar en ekki í sér að fyrirtækin reyni að auka verðmæti sitt og miðast ákvarðanir stjórnenda að því. Þessi stefna er í fullu samráði eigendur sem flestir vænta góðrar afkomu fyrir það áhættufé sem þeir hafa lagt í reksturinn. En þegar eigendurnir eru illa skilgreindur hópur, eða hópur sem hefur litla sem enga aðkomu að rekstri fyrirtækisins, sem er tilfellið hjá Símanum, er mikil hætta á því að stjórnendur missi sjónar af þessum hagsmunum og önnur sjónarmið ráði frekar ríkjum – ekki síst þegar umboðsmenn eigenda, alþingismenn, segjast skipta sér sem minnst af fyrirtækinu.
Mistökin eru að sjálfsögðu þau að hafa ekki selt Símann fyrir löngu. Oft er sagt að verið sé að bíða eftir réttu verði sem felur í sér ákveðna vantrú á markaðnum. Verðið sem menn eru tilbúnir að borga núna felur í sér þá trú sem markaðurinn hefur á fyrirtækinu og möguleikum þess í framtíðinni en fer ekki eftir skapi kaupenda hverju sinni. Það er ekkert sem segir að verðmæti Símans eigi eftir að aukast í framtíðinni og engin ástæða til að bíða eftir því.
Kaup Símans á Skjá 1 og enska boltanum eru kannski tilraunir til að auka verðmæti fyrirtækisins og vel getur verið að það takist. En þetta er viðskiptahugmynd og eins og hverri annarri fylgir henni áhætta.
Miklu eðlilegra hefði verið að slíkar ákvarðanir hefðu verið teknar af einstaklingum með raunverulega hagsmuni í spilunum og á réttum forsendum. Sýn og dómgreind manna virðist nefnilega skerpast til muna þegar þeirra eigin peningar eru í húfi en ekki annarra.
Því vekja kaup Símans á Skjá 1 upp margar spurningar – sérstaklega í ljósi fyrri viðskipta fyrirtækjanna.
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021