Iðnnám er sniðugt og gefur vel af sér!
|
Gott og vel, pistlahöfundur er hvorki kona né bifvélavirki. Það ætti öllum að vera fullljóst. Hins vegar er ekki hlaupið að því að skrifa grein um stöðu iðnmenntunar á Íslandi og fá fólk til að lesa hana nema með því að beita bellibrögðum af þeim toga sem pistlahöfundur beitti í fyrirsögn greinarinnar. Án frekari málalenginga, sem að jafnaði eru settar fram til að lengja pistila þannig að þeir líti síður út fyrir að vera pistlalíki, er rétt að gera gera grein fyrir nýlegu og stórmerkilegu málgagni Iðnemasambands Íslands. Í blaði félagsins kennir ýmissa grasa og þar er fjallað ítarlega um stöðu iðnmenntunar á Íslandi og hver framtíð hennar sé.
Það er ekki hlaupið að því að fá múrara, pípara eða aðra „–ara“ til að lagfæra helstu vankanta heimilisins. Enda eins og allir nemendur viðskiptafræði vita, þá er þetta allt sem spörgsmál um framboð og eftirspurn: Þegar innan við handfylli af múrarameisturum útskrifast árlega en nýbyggingar fyrir alla litlu bissnessmennina eru í hámarki þá er augljóst að eitthvað lætur undan.
Ég hefi það eftir fróðum mönnum að kauplag iðnaðarmanna hafi tekið umtalsverðan kipp umfram aðra launamenn á undangengnum árum og ekki sjái enn fyrir endann á þeirri þróun. Hins vegar þykir mér alveg stórmerkilegt hversu fáir telja að iðnnám borgi sig—þegar tölurnar tala sínu máli.
Menn þurfa ekki að vera sprenglærðir hagspekúlantar til að sjá að þegar framboð er margfalt meira en eftirspurn lækkar kauplag og atvinnuleysi eykst. Þannig voru þær heldur nöturlegar tölurnar sem birtust nýlega í Morgunblaðinu um atvinnuleysi á meðal viðskiptafræðinga, sem um þessar mundir er sem næst sögulegu hámarki. Enda skyldi engan undra. Þrjár stórar viðskiptafræðideildir framleiða marga viðskiptafræðinga og fyrr en síðar kemur að því að markaðurinn mettast.
Auðvitað er gott og blessað að fólk sæki í auknum mæli í háskólanám. Hins vegar læðist að mér sá grunur að iðnnám njóti ekki sannmælis í samfélaginu og hafi af einhverju óskiljanlegum ástæðum verið raðað skör lægra í virðingarstigann en öðru framhaldsnámi.
Og þetta á við í öllum greinum háskólans. Þannig er erfitt að henda reiður á hvernig 300 arkítektar eiga að geta fundið sér starf við hæfi þegar innan við 30 múrarar eru við nám. Eitt byggir nefnilega á öðru. Til að reisa nýbyggingar er ekki nóg að láta færustu burðavirkisverkfræðingana reikna burðarþolið og henda síðan teikningunum í arkítektana.
Smiðir, blikkarar, pípulagningamenn, málarar og múrarar eru nefnilega takmarkandi þátturinn og ef fram fer sem horfir erum við á góðri leið með að mála okkur út í horn!
- Vonin og óttinn - 20. október 2008
- Ný ríkisstjórn á næstu 90 leiki - 19. september 2007
- Launaskrið á Kalkofnsvegi er gott mál - 12. júlí 2007