Kosningar

Kosningar virðast vera einfalt fyrirbæri. Fyrst eru atkvæði greidd og svo eru þau talin. En fyrirbærið er í raun miklu flóknara en svo. Tryggja þarf meðal annars að hver aðili á kjörskrá greiði leynilega eitt og aðeins eitt atkvæði og það sé varðveitt á öruggan hátt þar til atkvæðið er rétt talið.

Kosningar virðast vera einfalt fyrirbæri. Fyrst eru atkvæði greidd og svo eru þau talin. En fyrirbærið er í raun miklu flóknara en svo. Tryggja þarf meðal annars að hver aðili á kjörskrá greiði leynilega eitt og aðeins eitt atkvæði og það sé varðveitt á öruggan hátt þar til atkvæðið er rétt talið.

Í áhugaverðri grein sem birtist í nýjasta hefti Scientific American eftir Ted Selker, yfirmann sameiginlegs verkefnis CalTech og M.I.T. á sviði rafrænna kosninga, er farið yfir kosti og galla mismunandi aðferða við atkvæðagreiðslu í kosningum.

Selker áætlar að í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2000 hafi fjórar til sex milljónir atkvæða ekki verið talin eða ekki verið greidd vegna vandamála sem tengjast framkvæmd kosninganna. Ef horft er til þess að í kosningunum greiddu um 105 miljónir manns atkvæði þá er þetta stórt hlutfall sem fór forgörðum. Jafnframt ef litið er til þess að úrslitin réðust á endanum af 537 atkvæðum í Flórída þá er ljóst að úrslit kosninganna gætu hafa orðið önnur hefði framkvæmdin verið betri.

Aðalvandamálið að mati Selkers tengist kjörskránni. Hann telur að 1.5 til 3 milljónir atkvæða hafi tapast vegna villna í henni. Um 1.5 til 2 milljónir atkvæða segir hann að hafi glatast vegna tæknilegra vandamála og um 1 milljón vegna annarra vandamála á kjörstöðum.

Af þessu virðist ljóst að fyrirkomulag kosninganna hafi verið meingallað. Kosningar eru kjarni lýðræðis og afar mikilvægt að þær endurspegli nákvæmlega vilja þjóðarinnar og óásættanlegt framkvæmdin hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni. Selker bendir á að nauðsynlegt sé að leita nýrra leiða.

Gjarnan er horft í þessum efnum til rafrænna aðferða. Rafrænar aðferðir eiga sér langa sögu í tengslum við kosningar. Edison sótti um einkaleyfi þegar árið 1869 á rafknúinni kosningavél. Frá 1970 hafa rafeindatæki í ýmsum myndum verið notuð í tengslum við kosningar en það er fyrst núna sem það er raunhæft og tæknilega framkvæmanlegt að halda stórar kosningar á rafrænan hátt.

Rafrænar kosningar hafa ýmsa kosti og galla eins og raunar áður hefur verið bent á hér á Deiglunni. Stærsti ókosturinn er sennilega sá að rafræn kerfi eru í eðli sínu flókin og leiða af sér alls kyns ný vandamál. Auk þess er erfitt að hanna notendaviðmót sem er jafn skýrt og það að krossa við bókstaf á blaði. Þar fyrir utan er ákveðin hætta á kerfisbundnum villum hvort sem þær stafa af villum í hugbúnaðinum sjálfum eða af rangri notkun hans. Líklegt er þó að hægt sé að komast fram hjá þessum helstu göllum með frekari þróun sem óhjákvæmilega kostar mikla peninga. Aukinn kostnað slíkra kerfa verða menn að setja í samhengi við það sem er í húfi. Það er ábyggilega langt þangað til að hannað verður öruggt og fullkomið kosningakerfi sem endurspeglar nákvæmlega vilja kjósenda.

Ýmsar framfarir hafa átt sér stað á síðustu fjórum árum og má ætla að framkvæmd forsetakosninganna eftir tæpa viku í Bandaríkjunum verið betri en hún var síðast. En eins og síðast hafa vandamál verið að koma í ljós. Nú sex dögum fyrir forsetakosningarnar hafa verið höfðuð 35 mál í 17 fylkjum vegna kosninganna. Ofbeldi í tengslum við kosningarnar hefur aukist. Ráðist hefur verið á skrifstofur repúblikana víðsvegar um landið, brotist inn í þær og skemmdarverk framin jafnvel hefur verið skotið á glugga og hurðir á nokkrum stöðum. Sem betur fer hefur enginn slasast í þessum árásum fyrir utan einn sjálfboðaliða sem handleggsbrotnaði þegar meðlimir verkalýðsfélags réðust inn á skrifstofu í Flórida.

Það er því ljóst að kosningarnar fara ekki vel af stað en aðalprófið verður næsta þriðjudag.

Latest posts by Eðvarð Jón Bjarnason (see all)