Staðan hefur hins vegar verið sú á Íslandi undanfarin misseri að stór eignarhaldsfyrirtæki og bankarnir hafa keppst við að kaupa upp öll fyrirtæki (og hvert í öðru) og selja aftur. Það hefur verið góð skemmtun að horfa á þetta úr fjarlægð en það stendur samt eftir að það er ekki verið að búa mikið nýtt til. Engar nýjar vörur, engin ný þjónusta, bara nýtt eignahald. Vissulega getur hagræðing í rekstri fyrirtækja skapað verðmæti en svo virðist sem nýsköpunarþátturinn hafi verið algjörlega á undanhaldi.
Menn hafa keppst við að bera lof á þessi fyrirtæki fyrir framsýni. Það er hins vegar ein lykiltala sem hlýtur að varpa skugga á málið. Þjóðfélagið virðist ekki vera að skapa nein störf! Bankarnir sem standa sig svo vel standa flestir í stað hvað varðar fjölda starfsmanna (skv. Ársskýrslum 2003) og það fréttist ekki mikið af fyrirtækjum sem eru að vaxa svo hratt að mikil fjölgun sé á starfsmönnum.
Ástandið hefur orðið þannig að fyrirtæki virðast ekki þora að standa í neinni þróunarvinnu vegna þess að slíkt dregur úr hagnaði hjá þeim og þegar menn skila inn ársfjórðungsuppgjörum þá eru skammtímafjárfestar fljótir að byrja að kvarta ef tölurnar eru þeim ekki að skapi.
Á meðan þessi risafyrirtæki halda áfram að soga til sín allt fjármagn í umferð til þess að kaupa hvert annað þá sitja sönn uppgangsfyrirtæki eftir með sárt ennið. Fyrirtæki virðast ekki þora að fjárfesta í litlum vaxtarfyrirtækjum.
Í allri gósentíðinni á hlutabréfmarkaði kann einhver að spyrja af hverju lítil fyrirtæki eru hér nefnd sértaklega. Það er vegna þess að flest störf sem verða til í þjóðfélaginu verða til í litlum fyrirtækjum. „Matador“-leikur stórfiskanna í viðskiptalífinu bætir litlu við flóru smáfyrirtækjanna.
Hver er afleiðingin af þessari þróun?
Mynd 1 – Smella á mynd til að stækka
|
Staðreyndirnar tala sínu máli. Á Íslandi virðist vera orðið stöðugt atvinnuleysi hjá yngsta hluta þjóðarinnar. Á síðastliðnum árum hefur atvinnuleysi hjá aldursflokknum 16-24 ára aukist úr 4.8% upp í 8,4% í ár (mynd 1). Þessar tölur segja síðan ekki alla söguna. Á sumrin fer atvinnuleysi þessa hóps niður í 4-5% vegna sumarleyfa en er á móti um 12% á öðrum ársfjórðungi (mynd 2).
Mynd 2 – Smella á mynd til að stækka
|
Og eitt leiðir af öðru. Ef maður fær enga vinnu á Íslandi – hvað gerir maður þá? Jú, flytur úr landi og leitar að betri tækifærum. Ef menn skoða tölur frá Hagstofu Íslands hvað varðar fjölda aðfluttra að frádregnum fjölda brottfluttra þá virðist ríkja jafnvægi. Ef menn sundurliða þessar tölur milli Íslenskra ríkisborgara og erlendra ríkisborgara þá kemur í ljós að Ísland hefur verið að flytja inn erlent vinnuafl á undanförnum árum til þess að bæta upp fyrir íslendinga sem snúa ekki heim (mynd 3).
Mynd 3 – Smella á mynd til að stækka
|
Veruleiki Íslands í dag virðist því vera að ungir Íslendingar eru að fara til útlanda vegna þess að hér er enga vinnu að hafa og þeir koma seint heim aftur. Á meðan stórfyrirtæki Íslands hafa skemmt sér undanfarið við að kaupa hvort annað og selja þá fer að verða tímabært að spyrja hvenær þau ætli sér að þola fyrirtækjum það að rannsaka og þróa til þess að þau geti vaxið..
Nú virðist sem löngu uppgangstímabili á hlutabréfamarkaði sé að ljúka. Það gæti þýtt að gott tækifæri til nýsköpunar hafi farið forgörðum. Afleiðingar þess kunna að verða langvinnar og ekki þjóðinni til heilla.
Tölfræðihemildir: Hagstofa Íslands
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021