Rjúpnaráðuneyti

RjúpanÞarf virkilega heilt ráðuneyti og sérstakan ráðherra til þess að ákveða hvort það megi skjóta einhverja fuglategund?

RjúpanÞarf virkilega heilt ráðuneyti og sérstakan ráðherra til þess að ákveða hvort það megi skjóta einhverja fuglategund?

Rjúpnaumræðan er sem betur fer ekki lengur að tefja alþingismenn enda er rjúpan líklega orðinn einn dýrasti fugl í heimi ef tekið er mið af þjóðfélagslegum kostnaði við allt það fjaðrafok sem í kringum hann hefur verið. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera, eins og Eiríkur Fjalar hefði sagt, ef það þarf sérstakan ráðherra og sérstakt ráðuneyti til þess að ákveða hvort það megi skjóta fugla. „Gerviráðuneyti“, hefðu einhverjir sagt. Er það alveg ómögulegt fyrir eitthvert hinna ráðuneytanna að taka að sér verkefnið?

Auðvitað er það vísvitandi einföldun hjá pistlahöfundi að ýja að því að umhverfisráðherra og ráðuneyti hans geri ekkert annað en að hugsa um rjúpur. En það breytir því ekki að það er fáránlegt að það skuli vera sérstakur ráðherra umhverfismála á litla Íslandi. Umhverfismál eru mikilvæg og það ber ekki að gera lítið úr þeim. En ef þörf væri á sérstökum ráðherra utan um hvern einasta málaflokk væri annar hver Íslendingur með einkabílstjóra (en þá væru væntanlega bara tvær starfstéttir í landinu: ráðherrar og einkabílstjórar).

Kjarni vandans liggur í veitingarvaldinu sem endurspeglar nokkra af göllum fulltrúalýðræðisins. Stjórnmálaflokkar hafa engan hvata af því að fækka ráðuneytum heldur þveröfugt. Þó svo að líklega sé þorri þjóðarinnar á þeirri skoðun að fækka þurfi ráðuneytum (og draga þar með úr óþarfa útgjöldum) er ólíklegt að það gerist á næstunni – því miður.

Marteinn Mosdal hefði væntanlega sagt: Eitt ráðuneyti – Ríkisráðuneytið. En óvíst er að sú lausn væri viðurkennd af mörgum öðrum en Pútín og hans skoðanabræðrum. En hvað með sex ráðuneyti í stað þeirra tólf sem við höfum nú?

Forsætisráðuneyti

Utanríkisráðuneyti

Atvinnumálaráðneyti
(Viðskipta-, Iðnaðar-, Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneyti)

Velferðarráðneyti (Heilbrigðis-, Tryggingar- og Félagsmálaráðuneyti)

Innanríkisráðuneyti (Menntamála-, Umhverfis-, Dóms- og Kirkjumálaráðuneyti)

Fjármálaráðuneyti (Fjármála-, Hagstofu- og Samgönguráðuneyti)

Svo geta menn velt því fyrir sér hvað myndi sparast og hvort skilvirknin myndi aukast.

Latest posts by Davíð Guðjónsson (see all)