Á baksíðu Morgunblaðsins í dag koma prósentur mikið við sögu. Annars vegar varðandi sáttatillögu ríkissáttasemjara í kennaradeilunni og hins vegar útreikninga bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Í þessum útreikningum bæjarstjórans kristallast kannski hvers vegna kennarar þurfa hærri laun?
Nú hefur kennaraverkfallið staðið í rétt rúmlega mánuð. Það þýðir einfaldlega að hver kennari er búinn að tapa einum mánaðarlaunum. Til að kennarar „græði“ á verkfallinu hljóta þeir því að þurfa að fá launahækkun sem nemur a.m.k. núvirtum einum mánaðarlaunum. Svo verður líklega ekki. Í það minnsta ef horft er til þeirrar lausnar sem ríkissáttasemjari lagði fram til að leysa kennaradeiluna.
Ásmundur ríkissáttasemjari lagði fram svo arfaslakt tilboð fyrir kennara að einsýnt er að lausn er ekki í sjónmáli. Hefðu kennarar tekið þessu tilboðið hefði ávinningur verfallsins verið sama og ekki neinn. Tilboðið hljóðaði upp 5,6% launahækkun strax, 100.000 kr. eingreiðslu 1. nóvember og lækkun á kennsluskyldu um tvo tíma á viku. Hækkanir árin 2005-2008 tækju svo mið af almennum hækkunum á markaði. Þær hækkanir eru árlega lægri en verðbólguspá fjármálaráðuneytisins fyrir 2005, sem er 3,5%, svo að kaupmáttaraukningin yrði neikvæð a.m.k. árið 2005 gangi sú spá eftir.
Þar sem kennarar hafa nú þegar tapað einum mánaðarlaunum og þar af leiðandi sveitafélögin grætt ein mánaðarlaun myndi maður halda að þessi eingreiðsla ætti að geta numið a.m.k. þeirri fjárhæð. Þar sem það hlýtur að vera hægt að gera ráð fyrir því að kennarar hefðu fengið sömu hækkanir og aðrir án þess að fara í verkfall yrði ávinningur kennara af verkfallinu, miðað við að eingreiðsla til þeirra næmi launatapi í verkfallinu, lækkun á kennsluskyldu og 5,6% launahækkun umfram aðra. Menn geta deilt um hvort það sé ríflegt en að mínu mati er skrýtið að setja allt þjóðfélagið á koll fyrir 5,6% og tvo tíma á viku!
Sveitastjórnirnar segjast vera krúnk og kennarar, skiljanlega, munu ekki samþykkja tilboð Ásmundar. Deilan virðist því í algjörum hnút. Ástandið er auðvitað óþolandi og mörg fyrirtæki í landinu verða fyrir miklu framleiðnitapi vegna foreldra sem þurfa að sjá um börnin sín. Þjóðfélagslegur kostnaður verkfallsins er því væntanlega miklu meiri en 5,6% og tveir tíma á viku. Það þarf einfaldlega að leysa þessa deilu og það strax. Til þess að það verði hægt þurfa ríkið, kennarar og sveitafélögin að setjast niður og standa ekki upp fyrr en málið er leyst.
Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að kennarar verðskulda hærra laun þó svo ég sé ekki sammála þeirra baráttuaðferðum . Íslendingar eru almennt sammála því að menntun sé mikilvæg og góð fjárfesting. Jafnframt virðast menn almennt telja að gera megi betur í menntun barna sérstaklega varðandi stærðfræði- og raungreinakennslu. Að hækka laun kennara bætir kannski ekki stöðuna strax en með því er a.m.k. verið að leggja grunninn fyrir komandi kynslóðir kennara.
Ef baksíða Morgunblaðsins í dag er marktækur vitnisburður um stærðfræðikennslu í grunnskólum landsins er ljóst að það verður að gera betur. Bæjarstjóri á höfuðborgarsvæðinu skrifar þar um tekjuaukningu sveitafélaganna sem hann fullyrðir að sé 300% á einum áratug. Ef nánar er að gáð sést að tekjuaukningin er úr tæplega 35 milljörðum 1995 í tæpa 107 milljarða 2005. Allir sem lært hafa prósentureikning sjá strax að aukningin er 200% en ekki 300% ( sem sagt (107/35 – 1)*100%).
Kæri bæjarstjóri, væri nú ekki ráð að bæta kjör kennara svo að meiri líkur verði til að nemendur framtíðarinnar verði betri í prósentureikningi en þú? Spyr einn verkfallspirraður.
Ekki skal þó fullyrt hvort þetta dæmi sé betri vitnisburður um stærðfræðikunnáttu bæjarstjóra eða ritstjórnar Morgunblaðsins. Sama hvort er, þurfum við allavega að gera betur!
- Eru skuldir heimilanna ofmetnar um 70 milljarða? - 23. febrúar 2009
- Augun full af ryki og nefið af skít! - 8. janúar 2009
- Reið framtíð? - 6. desember 2008